136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:15]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil þá svar hv. þingmanns þannig — hann getur þá leiðrétt mig á eftir — að hann telji þetta ekki ásættanleg vinnubrögð. Þau eru náttúrlega engan veginn lýðræðisleg og í raun og veru mjög gerræðisleg, að ríkisstjórnin skuli með þessum hætti ganga til samninga og setja nafn sitt undir þá. Eins og fram kom í ræðu forsætisráðherra í morgun á aftur að nota nöfn ráðherranna á morgun undir bréf sem senda á til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins án þess að innihaldið eða þær skuldbindingar sem þar er verið að leggja til að íslenska þjóðin undirgangist hafi verið kynnt, hvorki þingmönnum né almenningi. Þetta eru þau gerræðislegustu vinnubrögð sem ég hef kynnst í svo stóru máli síðan ég kom á þing. Það er ekki einu sinni svo að menn séu að ganga frá fjárlögum til eins árs, menn skuldbinda hér íslensku þjóðina kannski um tvær, þrjár kynslóðir. Það á að gerast með þeim hætti að bara örfáir einstaklingar í framkvæmdarvaldinu véli þar um. Staða Alþingis er ekki mjög rúm þegar þrír eða fjórir ráðherrar eru búnir að setja nafn sitt undir skjal, undir viljayfirlýsingu, undir samkomulag á alþjóðavettvangi.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann vilji ekki slást í för með okkur í Vinstri grænum og mótmæla þessum valdagjörningi og yfirgangi sem framkvæmdarvaldið sýnir þarna og fyrirlitningu sem það sýnir Alþingi og íslenskri þjóð.

Það er alveg rétt að framkvæmdarvaldið hefur verið mjög ásælið og ég styð (Forseti hringir.) alveg hv. þingmann í því að færa eigi (Forseti hringir.) valdið til þingsins frá framkvæmdarvaldinu.