136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:20]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að það eru alvörutímar sem íslenska þjóðin upplifir um þessar mundir. Líklega hafa meiri tíðindi gerst hér í efnahagsmálum en áður í sögu lýðveldisins jafnvel þótt lengra væri leitað aftur í tímann. Það skiptir því máli hvernig haldið er á málum þessar vikurnar á meðan hættulegasta siglingin fer fram. Við þær aðstæður tel ég skynsamlegast að reyna að stappa stálinu í þá sem eru undir árum í bátnum og sérstaklega þann sem er skipstjóri eða stýrimaður á skipinu. Við höfum ekkert upp úr því á þessum dögum sem nú eru að líða að reyna að gera lítið úr þeim verkum sem unnin eru eða tortryggja þá sem vinna þau. Það þýðir ekki endilega að ég sé sammála öllu því sem gert er en ég held að það sé meiri ávinningur af því að reyna að beina mönnum áfram og styðja við bakið á ríkisstjórninni en að grafa undan trúverðugleika hennar. Það er nógur tími síðar til þess að fara yfir málin og forsöguna og ábyrgðina á því sem hefur leitt til þess sem gerst hefur og það verða örugglega nógu margir til þess að ræða þá hluti. Mér hefur heyrst í umræðunni í dag að menn hafi rætt um ábyrgð á fortíðinni — þó að ég geri ekki lítið úr því að menn geri upp ábyrgðina — en mér finnst að núna skipti mestu máli að greina stöðuna og finna lausnir sem eru farsælar fyrir land og þjóð. Það finnst mér vera höfuðverkefni okkar þessa dagana, að ræða lausnirnar sem menn kunna að hafa og það er ekkert að því að hafa mismunandi lausnir á þeim vanda sem uppi er. Það er eðli lýðræðisins og þess vegna skipa menn sér í flokka. Menn eru ekki alltaf sammála og þeir eiga að draga upp úr pússi sínu hugmyndir og tillögur um aðgerðir á næstunni og sýn á vandann, hvað helst þarf að glíma við.

Ég held að minna eigi að ræða um ábyrgðina þar til hitt er yfirstaðið en sú umræða verður örugglega tekin. Ég hef heyrt það í umræðunni að við erum svo lánsöm hér í hv. Alþingi að það eru nokkuð margir þingmenn sem búa yfir vitneskju og þekkingu hvað það varðar. Þeir hafa haft rétt fyrir sér í einu og öllu á því sem á undan er gengið og þeir bera enga ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Það hlýtur að vera mikil gæfa fyrir Alþingi að búa svo vel að eiga svona marga hæfa þingmenn. Við hljótum þá að komast að skynsamlegri niðurstöðu þegar menn fara betur ofan í það sem er mest aðkallandi að ræða og greina stöðuna og vandann og síðan lausnirnar sem menn sjá út úr því.

Ég er sammála því að það sem skiptir mestu máli þessa dagana er að koma gjaldeyrismálunum í viðunandi horf. Það er sá vandi sem hefur reynst okkur erfiðastur fram til þessa frá því að bankarnir fóru á hausinn og sem hefur valdið þjóðinni mestum búsifjum enn sem komið er. Það er auðvitað álitamál hvort sú leið sem valin var, að hækka stýrivexti, sé sú rétta. Það hefur komið fram í máli þeirra sem telja má sérfræðinga á þessu sviði. Sumir eru henni sammála og aðrir ekki. Ég hallast að því að þessi leið sé sú sem menn eiga að fara. Ég geri ekki ágreining við ríkisstjórnina um að beita þessari aðferð til þess að reyna að koma gjaldeyrismarkaðnum á réttan kjöl þannig að gengi krónunnar hækki frá því sem nú er og verðbólgan lækki. Það er íslenskri þjóð til hagsbóta ef menn ná þeim árangri. Sérstaklega er það þeim til hagsbóta sem skulda og þeir eru býsna margir sem safnað hafa ansi miklum skuldum á síðustu fjórum, fimm árum þegar lánsfé var svo ódýrt sem raun bar vitni á þeim tíma. Sá hópur á mest undir því að menn nái árangri í þessum efnum.

Ég viðurkenni að það má vel hugsa sér að fara aðrar leiðir. Það má vel hugsa sér að hafa vextina lægri vegna þess að eftirspurnin er ekki vandamál um þessar mundir, það er gjaldeyririnn sjálfur og trúverðugleiki þjóðarinnar. Það má einnig hugsa sér að nota þá hugmynd sem send var hv. þingmönnum í tölvupósti utan úr bæ, að greiða sérstaka vexti á krónubréfin. Það eru þau sem eru höfuðvandinn þessa dagana, þeir tvö til þrjú hundruð milljarðar króna í krónubréfum sem við getum þurft að borga út á mjög skömmum tíma og ef það gerist fellur gengið. Þá hefst verðbólgan og framhaldið þekkja allir. Það er hugsanlegt að finna leið til þess að koma í veg fyrir það með því að bjóða eigendum þeirra að endurnýja þau gegn tiltölulega háum vöxtum. Það er mikill kostnaður sem við leggjum á þjóðina með því að borga þá vexti en það kann að vera að það sé leið sem er ódýrari en að hafa háa stýrivexti.

Þá má einnig hugsa sér að skattleggja gjaldeyrisviðskipti. Gjaldeyrisviðskipti eru ekkert annað en viðskipti með vöru eins og hver önnur viðskipti og það er almenn regla í þjóðfélaginu að greiddur sé virðisaukaskattur af viðskiptum, bæði af vörum og þjónustu. Ég heyrði það á máli hæstv. utanríkisráðherra að til greina kæmi að setja tímabundnar takmarkanir á frelsi fjármagnsins. Ég held að menn eigi að hugleiða þá leið mjög alvarlega því að það er þekkt hér á landi eins og víðar að sumir hlutir eru þess eðlis að óheftir eru þeir mönnum ekki heilsusamlegir. Áfengi er engin venjuleg vara, segir í einni bók. Þess vegna höfum við reglur um áfengið og frelsið, hvernig eigi að meðhöndla það og selja. Græðgin er heldur engin venjuleg synd. Hún er sennilega versta syndin sem við höfum séð síðustu árin. Græðgin, sem engar hömlur eru settar á með reglum um frelsi fjármagnsins, hefur leitt okkur í þessar ógöngur. Það er ekkert að því að hafa skynsamlegar reglur um viðskipti með gjaldeyri og flutninga á fjármagni, virðulegi forseti.

Umfang vandans er mikið. Það verða miklar skuldir sem ríkið verður að taka á sínar herðar. Það er ýmislegt sem menn þurfa að gera á næstu árum sem ekki er til vinsælda fallið. Ég held að stjórnmálamenn eigi að draga þá mynd upp fyrir þjóðinni þannig að menn hafi tíma til þess að vega hana og meta. Það er rétt að fram undan eru í fyrsta lagi skattahækkanir og í öðru lagi niðurskurður á útgjöldum ríkissjóðs. Það er óhjákvæmilegt. Það kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að halli ríkissjóðs á næsta ári geti numið meira en 10% af landsframleiðslu, það eru um 150 milljarðar kr. Við þolum ekki svona mikinn halla á ríkissjóði, ekki í eitt ár hvað þá í fleiri. Það verður þegar í stað að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að hallinn verði svo mikill á næsta ári. Það þarf að eyða honum á fáeinum árum þannig að ríkissjóður verði ekki rekinn með miklum halla í mjög mörg ár því að það eru drápsklyfjar ofan á skuldirnar sem við munum væntanlega taka á okkur á næstu vikum.

Það þarf að bregðast við vanda skuldsettra heimila með því að opna möguleika á skuldbreytingum, frestunum á greiðslu skulda og öðru slíku sem gerir fólki kleift að halda húsnæði sínu og skapa sér svigrúm til að borga skuldirnar. En ég vara sérstaklega við hugmyndum um að afnema verðtryggingu fjármagns. Það væri enn einn hausverkurinn sem við bættum við ef menn álpuðust út í þá forarvilpu. Þá opnuðum við fyrir það að þeir sem safnað hafa þessum skuldum geti losnað undan því að borga þær til baka vegna þess að tekið er af hinum sem eiga skuldirnar, sparifjáreigendum og þeim sem eiga lífeyrissjóðsréttindi í sínum sjóðum. Við erum engu bættari með því að láta þann hluta þjóðarinnar borga fyrir hinn hlutann sem ber skuldir um þessar mundir þannig að ég held að engin bót yrði að slíkri ráðstöfun.

Við eigum að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar eins og hægt er, m.a. með því að auka veiðar á þorski nú þegar um 20–30 þúsund tonn og við eigum að byggja fleiri álver. Það er ekkert að því að byggja fleiri álver á Íslandi (KolH: Hvar ætlarðu að fá lán fyrir því?) (Forseti hringir.) rétt eins og það er ekkert að því að veiða fleiri þorska, virðulegi forseti.