136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:30]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Frú forseti. Á síðustu vikum hafa dunið yfir okkur Íslendinga dapurlegar fréttir, tíðindi sem fáa hefði grunað fyrir nokkrum mánuðum að biðu okkar. Hvert áfallið hefur rekið annað á stuttum tíma og eðlilegt að fólki sé brugðið við svo slæmar fréttir af fjármálakerfi landsins. Ofan á það hafa bæst ótrúlegar fréttir af viðbrögðum breskra stjórnvalda, ríkisstjórnar þjóðar sem við höfum talið til vinaþjóðar okkar og Íslendingar hafa í langan tíma átt mikil og fjölbreytt samskipti við.

Þjóð okkar er í vanda. Landsmenn eru í áfalli. Þjóðarstoltið og ímynd landsins hefur beðið hnekki. En við megum ekki láta bugast og nú er mikilvægt að bregðast við af yfirvegun og skynsemi. Í svona stöðu bíða alltaf fjölmörg tækifæri og nýir möguleikar. Vandamálin sem við horfumst í augu við eru auðvitað risavaxin á okkar mælikvarða þegar þrír stærstu bankar landsins fara á hliðina.

En við megum heldur ekki gleyma því í umfjöllun um þessi mál innan lands að við erum hluti af alþjóðlegu fjármálakerfi og kreppan í fjármálakerfi heimsins hittir okkur mjög hart fyrir. En nú er það skynsemi og rósemi sem skiptir mestu máli og að allir aðilar taki sameiginlega á málum til að lágmarka skaðann sem við verðum fyrir og hefja eins fljótt og unnt er uppbyggingarstarf að nýju. Þar berum við stjórnmálamenn mikla ábyrgð. Við eigum að vera í fararbroddi og hvetja til samstöðu, efla bjartsýni og grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á jafnvel þó að sársaukafullar geti verið um skamma hríð. Samstaða þarf að nást með sveitarstjórnum, aðilum vinnumarkaðarins og heimilunum í landinu. Við verðum öll að gera okkur raunsanna grein fyrir ástandinu en megum ekki missa sjónar á góðum kostum í stöðunni.

Einhvers staðar segir að þegar einn gluggi lokast opnist hurð annars staðar. Þetta verðum við ávallt að hafa hugfast. Við verðum að leita leiða til að tryggja framtíð íslenskrar þjóðar og þá meina ég allra leiða. Við búum að því núna hvað undirstöður samfélagsins eru í rauninni traustar. Nú kemur sér vel að hafa náð því á undanförnum árum að greiða upp nánast allar skuldir ríkissjóðs. Nú kemur sér vel að hafa byggt upp innviði samfélagsins eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Nú kemur sér t.d. vel sú áhersla sem ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á menntamálin og þær framfarir sem þar hafa orðið með nýjum menntastofnunum og öflugu vísindasamfélagi.

Nýlega var ég viðstödd vígslu nýs menntaskóla í Borgarbyggð. Þar var mikið lof borið á menntamálaráðherra og ríkisstjórnina fyrir stuðning við uppbyggingu á svæðinu. Samfélag á Vesturlandi hefur styrkst mikið með nýjum og öflugum skólastofnunum, bæði framhaldsskólum og háskólum. Margfeldisáhrif slíkrar uppbyggingar eru mikil og skila sér í ríkum mæli út í samfélagið. Þetta allt þurfum við að standa vörð um nú þegar hagur okkar þrengist um sinn.

Í menntun þjóðarinnar er einn mesti auðurinn fólginn. Þar munum við finna undirstöður fyrir nýjar sóknir með nýtingu þeirra auðlinda sem landið býr yfir og við eigum að halda áfram að nýta af virðingu og skynsemi. Smæð hagkerfis okkar og Seðlabankans hefur nú gert okkur erfitt fyrir og loks ómögulegt að standa undir hinum mikla bankarekstri sem hér var risinn og því höfum við þurft að leita til annarra þjóða og til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirgreiðslu, eins og hér er til umræðu og hæstv. forsætisráðherra hefur gert skilmerkilega grein fyrir í skýrslu sinni í þinginu.

Allt frá því að neyðarlögin voru samþykkt samhljóða mótatkvæðalaust á þinginu 6. október sl. hefur ríkisstjórnin og aðilar á hennar vegum verið að vinna að því að bjarga því sem hægt var við þessar aðstæður. Fyrst bankarnir gátu ekki staðist þetta ástand og ríkisvaldið varð að grípa inn í var aðalatriðið að tryggja að þeir gætu haldið uppi grunnþjónustu í landinu. Það hefur tekist. Það þurfti að eyða óvissu með innstæður í bönkum. Það hefur í meginatriðum tekist. Nýju bankarnir eru nú komnir af stað og við hljótum öll að óska þeim velfarnaðar í þeim ólgusjó sem þeir sigla nú í. En nú skiptir mestu að koma gjaldeyrismálum okkar í lag og tryggja stöðugleika krónunnar. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er auðvitað lykilatriði í því sambandi og mikilvægt að menn standi nú heils hugar að baki þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru í því sambandi og aðilar vinnumarkaðarins hafa m.a. hvatt til að undanförnu. Vonandi tekst svo fljótt í framhaldinu af því að útvega meira fjármagn frá öðrum löndum eins og fyrirheit hafa verið gefin um.

Skiljanlega hefur fólk brugðist við ástandinu með mismunandi hætti. Ýmsir eru mjög reiðir. Það er skiljanlegt enda ekki eftirsóknarvert að lenda í þessum ósköpum. Enginn vildi að þessar aðstæður kæmu upp. En þótt reiði grípi um sig verður engu að síður að hugsa málið í gegn með eins yfirveguðum hætti og hægt er. Ég vara við hættunni á því að ýmis mál séu sett í uppnám við þessar aðstæður. Við verðum af fremsta megni að halda í það sem við höfum þegar stormurinn geisar líkt og nú er. Við vitum hvað við höfum en við vitum ekki endilega hvað við fáum ef við hreyfum við of miklu líkt og fólk sem er í tjaldútilegu og lendir í stormi. Nokkrir hælar losna og það þarf að finna þeim nýjan stað og stinga þeim niður svo tjaldið veiti áfram skjól gegn óveðrinu. En ekki er ráð að losa um alla hælana og eiga á hættu að tjaldið fjúki út í veður og vind. Með sama hætti verðum við að koma nauðsynlegum atriðum í fjármálakerfinu í réttar skorður áður en hægt er að taka önnur mál á dagskrá.

Umræður um hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið, hugsanlega annan gjaldmiðil en íslensku krónuna og þar fram eftir götum eru ekki forgangsatriði í dag. Umræðan um það, eins takmörkuð og hún hefur verið, getur í raun villt mjög um fyrir fólki. Stór hluti þjóðarinnar trúir því að bara með því að taka upp evru leysist öll okkar vandamál. Fólki er jafnvel talin trú um að verðlag muni lækka við upptöku evru og almenningur er jafnframt farinn að halda að unnt sé að ganga inn í Evrópusambandið með skömmum fyrirvara og evran bíði bara við næsta horn. Hlutirnir eru ekki svona einfaldir og allir hljóta að sjá að samningsstaða okkar í dag er ekki góð við gerbreyttar forsendur.

Í þessari umræðu allri fer enn fremur lítið fyrir þeirri staðreynd að við værum að færa yfirráð yfir helstu auðlindum landsins í hendur miðstýrðs valds í Brussel. Það er því að mínu viti mikill ábyrgðarhluti að standa fyrir umræðu um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru með þeim hætti að almenningur fari að halda að slíkt sé úrræðið í dag og leysi þau vandamál sem við eigum nú við að glíma. Ég tel hins vegar að það sé forgangsatriði að endurskoða peningamálastefnu þjóðarinnar og vænti þess að í því sambandi verði allar hugsanlegar leiðir skoðaðar og aðilar víða að fengnir til þess verks.

Umræður um hvar ábyrgðin á stöðu mála liggi er skiljanleg. Eðlilega liggur sú ábyrgð víða en mikilvægt er að sú skilgreining fari fram málefnalega og með faglegum hætti. Reiði og hefndarþorsti er ekki gott veganesti inn í þá vinnu. Hæstv. forsætisráðherra boðaði þegar í viðtali við Morgunblaðið hinn 12. október sl. að nauðsynlegt væri að búa til svokallaða hvítbók um ástæður þess hvernig komið væri. Rannsókn sem miðaði að því að greina málið og hvort einhverjar reglur hefðu verið brotnar eða lög og þá yrðu menn að sæta ábyrgð. Auk þess hefur ríkissaksóknara nú þegar verið falið að hefja gagnasöfnun og undirbúa rannsókn. Það er að mínu viti afar mikilvægt að væntanleg hvítbók verði unnin sem fyrst, um leið og ástandið batnar og öldur lægja og af aðilum sem hafa til þess þekkingu og njóta trausts. Ég fagna enn fremur að ákveðið hefur verið að undirbúa málssókn gagnvart Bretum vegna þess skaða sem þeir hafa valdið Íslendingum með framgangi sínum og beitingu hryðjuverkalaga.

Virðulegi forseti. Nú skiptir mestu að missa ekki sjónar á aðalatriðum málsins og vinna hratt og örugglega og án flumbrugangs að því að koma málum í eins eðlilegt horf og kostur er. (Forseti hringir.) Samvinnan við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lán frá honum verða okkur vonandi til heilla og stuðla að frekari lántöku hjá öðrum þjóðum. Með þeim hætti mun okkur takast að styrkja gjaldmiðil okkar og koma gjaldeyrisfærslum í öruggan farveg.