136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:53]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að líta svo á eftir að hafa lesið tilkynninguna frá Seðlabankanum, bæði þá sem kom í gær og einnig þá sem kom í dag, að krafan um 18% stýrivexti hafi verið með þeim hætti að hún hafi átt að vera gengin í gildi áður en samkomulagið að öðru leyti yrði samþykkt í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það segir á heimasíðu Seðlabankans í dag — nú les ég, með leyfi forseta, úr tilkynningu bankans:

„Ráðherrar úr ríkisstjórn hafa undrast vaxtahækkun í 18% og hafa jafnframt sagt að ekkert ákvæði um slíka gjörð sé í samningsgerðinni.“

Síðan er greint frá efni 19. töluliðar. Í honum segir upp á íslensku að hækka eigi stýrivexti í 18%. Svo skulum við fara í annað blað, Morgunblaðið, 29. október sem er í gær, með leyfi forseta:

„Í rökstuðningi bankans frá því í gær segir: „Í liðinni viku gerði ríkisstjórnin samkomulag við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í samkomulaginu, sem lagt verður fyrir framkvæmdastjórn hans til staðfestingar á næstu dögum, felst m.a. að Seðlabankinn skuli þá hafa hækkað stýrivexti í 18% sem nú hefur verið gert.““ Krafan virðist hafa verið sú að þegar samkomulagið kæmist á og stjórnin mundi samþykkja það væri forsenda fyrir samþykkt stjórnarinnar að við hefðum þegar að því kæmi verið búin að hækka stýrivextina í 18%. Svona les ég út úr þessu.