136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður endaði á því að gera að umtalsefni viðveru hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma á Norðurlandaráðsþingi held ég að það sé óhjákvæmilegt að fram komi að hæstv. ráðherra var einungis að fylgja þeirri tímaáætlun sem lagt var upp með af hálfu þeirra sem skipulögðu þann fund. Það er ekki hægt að áfellast hann fyrir að vera mættur á þeim tíma sem honum er sagt að vera mættur á og finnst mér það frekar ósanngjarnt. Þetta kom fram á þinginu og mér finnst ósanngjarnt að nefna það í þessari umræðu.

Það sem ég vildi gera að umræðuefni í þessu andsvari er að mér þykir hv. þingmaður ganga frekar langt í því að halda sig í þeirri undarlegu skógarferð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kaus að fara í til Noregs til að reyna að finna fyrir því einhvers konar rökstuðning að eitthvað annað en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og samstarfið við hann hefði getað verið mögulegt og að í reynd væri í því einhver valkostur. Það kom skýrt fram í máli forsætisráðherra Noregs á Norðurlandaráðsþingi að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessu máli auðveldaði aðkomu annarra ríkja. Það kom líka skýrt fram hjá honum að einstök ríki hefðu ekki burði til að hanna eða fylgja eftir verkefnum af þessum toga. Ég er ekki með nákvæmt orðalag fyrir framan mig. Hann tók afar skýrt og jafnvel enn skýrar af skarið með þetta í viðtali við Ríkisútvarpið, sjónvarp í gærkvöldi frekar en fyrrakvöld og fjallaði þar nákvæmlega um þessi atriði, með öðrum orðum að það eru ekki einstök ríki sem hafa þekkingu eða hæfni eða burði til að stjórna eða reka nauðsynlegt samkomulag sem forsendu lánveitingar af þeim toga sem hér um ræðir.