136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:05]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kallar það rökleysu sem við þingmenn Vinstri grænna förum með og talar um týndan formann í skógarrjóðri. Nú vil ég upplýsa hv. þingmann um að allt það sem við erum að segja hefur komið fram í norskri pressu. Í morgun heyrði ég viðtal á Rás 1 við Íslending sem býr í Ósló og sagði útvarpsmanni frá því að allir Norðmenn vissu að norska ríkisstjórnin hefði beðið eftir því að íslenska ríkisstjórnin hefði samband en hún gerði það ekki. Norðmenn undruðu sig á því. Þeir gerðu það í síðustu viku og vikunni þar áður og þeir gera það enn í dag. Ég vil því bara segja við hv. þingmann að við förum ekki með rökleysu.

Auðvitað er mjög erfitt að þurfa að tala um þessa hluti í einhverri þáskildagatíð og segja hvað ef? Við gerum okkur fulla grein fyrir því. Auðvitað stöndum við hér og reynum að koma með hugmyndir til lausnar. Við höfum boðið okkur fram til þess frá fyrsta degi. Hefur verið tekið í þá hönd? Höfum við verið mikið við borðið að hanna einhverjar lausnir með ríkisstjórninni? Ó nei. Engin samræðustjórnmál núna. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru ekki við borðið. Við þurfum að reyna að leita fyrir okkur í því sem sagt er, ráða í orð ráðherranna og sömuleiðis að leita fyrir okkur í fjölmiðlunum um hver hin raunverulega staða sé.

Ég er algjörlega sannfærð um það, hæstv. forseti, að skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi niðurskurð á velferðarkerfinu verða kannski ekki orðuð á sama hátt og ég gerði í ræðustóli Alþingis en þau eru fólgin í skilyrðunum engu að síður. Við heyrðum hæstv. forsætisráðherra segja í morgun að það kostaði 85% af vergri landsframleiðslu að endurreisa bankana og gera mætti ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs hækki úr 29% í lok árs 2007 í 100% í lok árs 2009. Hvað vitum við varðandi skilyrðin sem IMF setur? Árið 2012 á ríkissjóður að vera hallalaus. Við vitum að við stefnum í gríðarlegt hallatímabil með ríkissjóð en hann á að vera hallalaus árið 2012 samkvæmt skilyrðunum, eftir því sem okkur hefur heyrst. Hvað þýðir það annað en gríðarlegan niðurskurð á endanum? Á hverju? Á velferðarkerfinu.