136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:07]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur um margt verið ágætisumræða um efnahagsmálin og stöðuna það sem af er degi. Ég hygg að einir 20 þingmenn hafi tekið til máls síðan að umræðan hófst í morgun og hún hefur að mestu leyti verið málefnaleg vil ég leyfa mér að segja. Auðvitað mismálefnaleg eins og gengur og gerist og virðist fara svolítið eftir flokkum.

Mig langar að koma inn á þrjú atriði í upphafi áður en ég sný mér að aðalatriði ræðu minnar sem lýtur að hag heimilanna og fjölskyldunum í landinu. Í fyrsta lagi vil ég bregðast við því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði fyrr í dag. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að rannsókn á því hvað gerðist í aðdragandanum að bankahruninu ætti að fara fram á vegum þingsins og þingmanna. Ég tel það ekki heppilegt. Mín skoðun er sú að þingið geti jú sett af stað vinnu en sú yfirferð verður að vera algerlega hafin yfir allan vafa. Til þess að svo megi verða verðum við að fá hingað óháða sérfræðinga. Líklega verða þeir að koma að utan til þess að enginn vafi leiki á einhverjum tengslum. Ég vil bara nefna hér að það er mín skoðun að hvítbók sú, eða sú rannsókn sem fara á fram, verði að vera óháð og að henni verði að koma erlendir sérfræðingar.

Ég vil líka nefna áður en lengra er haldið — af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem nú er reyndar farin úr salnum sýnist mér, talaði um hugmyndir til lausnar. Ég hef nú setið hér og hlustað á allar ræðurnar 20 sem hafa verið haldnar í þessari umræðu í dag en ég varð ekki vör við margar hugmyndir til lausnar í ræðum þingmanna Vinstri grænna. Því miður. Þeir notuðu frekar tímann til að gagnrýna og dvelja í fortíðinni og velta því fyrir sér hvað hefði farið úrskeiðis.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom hingað upp í dag og hélt ágæta ræðu þar sem hann talaði m.a. um það sem fram undan er og gerði helst að umtalsefni sparnað í ríkisrekstrinum. Ég held að við séum að horfa á gerbreytta heimsmynd og gerbreytt landslag á Íslandi. Ég held því miður að samhliða miklum niðurskurði hjá ríkinu og einstaka stofnunum sé óhjákvæmilegt að menn líti líka til aukningar tekna. Ríkissjóður er ekkert öðruvísi en heimilin í landinu. Til hvaða aðgerða eru heimilin að grípa núna? Það er tvennt. Þau draga saman og reyna að auka tekjur sínar til þess að ná endum saman.

Hæstv. utanríkisráðherra gerði grein fyrir því í dag að hún sæi fyrir sér sparnað í sínu ráðuneyti, á sínum póstum, og ég fagna því. Ég vil hvetja aðra ráðherra í ríkisstjórninni til þess að hugsa hlutina upp á nýtt. Það er fita víða í þessu stjórnkerfi sem má svo sannarlega skera niður. Ég held, án þess að ég fari nánar út í þá sálma, að í vetur verði óhjákvæmilegt að ríkissjóður horfi til þess að auka tekjur sínar með einhverjum hætti.

Þriðja atriðið sem ég vil gera að umtalsefni og mörgum hefur orðið tíðrætt um er stýrivaxtahækkunin sem Seðlabankinn kynnti. Ég ætla ekki að hafa miklar efnislegar skoðanir á því eða velta mér upp úr því að öðru leyti en að ég verð að segja að mér fannst útspil Seðlabankans mjög einkennilegt varðandi þessa fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér. Í yfirlýsingunni segir Seðlabankinn — ég geri ráð fyrir því að þar tali formaður bankastjórnar Seðlabankans því þegar Seðlabankinn sendir eitthvað frá sér ber formaður bankastjórnar yfirleitt ábyrgð á því — að ráðherrar í ríkisstjórninni hafi að mati bankans undrast hækkunina og í ljósi þess telji bankinn nauðsynlegt að birta þessa tilkynningu.

Ég er búin að vera að skoða yfirlýsingar ráðherranna síðustu daga og ég sé ekki nema einn ráðherra sem hefur sérstaklega undrast þessa ákvörðun. Hvaða ráðherra skyldi það nú vera? Það er hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hvaða skilaboð eru þetta frá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins til núverandi varaformanns sama flokks? (VS: Það er augljóst.) „Það er augljóst“ er kallað hér úti í sal. Ég er ekki með neinar samsæriskenningar á takteinum og ætla svo sem ekki að hafa þær uppi en mér finnst þetta vægast sagt einkennilegt útspil. Mér finnst alls ekki við hæfi að embættismaður í þessari stöðu eða bankastjórnin sendi frá sér yfirlýsingu af þessu tagi. En nóg um það.

Það sem mér finnst skipta mestu máli og langar að ræða hér í lokin er hagur heimilanna og fólksins í landinu. Ég held að við verðum núna alvarlega — ég veit að sú vinna fer fram m.a. vegna þess að ég er þátttakandi í vinnuhópi sem er að skoða alls kyns tillögur til úrlausnar fyrir heimilin í landinu. Þar kemur ýmislegt til. Það er staðreynd að bankastofnanir hafa að undanförnu boðið upp á frystingu lána og alls konar greiðsluaðlaganir. Ég held hins vegar að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að við þurfum hugsanlega að færa niður lán. Bandaríkjamenn hafa gert það og mér finnst allt í lagi að við Íslendingar skoðum það til þess að standa vörð um heimilin, að lán þeirra, sérstaklega til íbúðakaupa, verði færð niður til þess að þau fari ekki á hausinn.

Ég held að við verðum að leyfa okkur að hugsa upp á nýtt og út fyrir rammann. Ég vil nefna eitt dæmi þar að lútandi sem snýr að viðbótarlífeyrissparnaði landsmanna eða séreignarsparnaðinum. Þegar lögin um séreignarsparnað voru sett árið 1999 — það augljóst þegar maður les lögin að séreignarlífeyrissparnaðurinn er hugsaður sem áfallatrygging þannig að lendi einhver í því að verða öryrki getur hann fengið viðbótarlífeyrissparnaðinn greiddan út. Ef ég fell frá fær maki minn eða erfingjar lífeyrissparnaðinn greiddan út. Ég lít svo á að það séu áföll sem dynja yfir þjóðina núna og þess vegna eigi að skoða mjög rækilega að við tilteknar aðstæður gefist fólki tækifæri til þess að taka út þennan séreignarlífeyrissparnað núna og nota til þess að greiða niður skuldir, hvort sem það eru óhagstæðar yfirdráttarskuldir, íbúðalán eða þar fram eftir götunum. Ég bendi líka á að í ályktun ASÍ frá ársþingi þeirra fyrir nokkrum dögum síðan er einmitt opnað á þessa leið og ég fagna því mjög.

Ég hef einnig upplýsingar um að þessa dagana segi fólk í stórum stíl upp séreignarlífeyrissparnaði sínum vegna þess — við verðum að átta okkur á því — að það er svo mikið traust horfið í þessu samfélagi. Traustið á bankastofnununum er farið. Traustið á stjórnmálunum er trúlega líka farið og traust á lífeyrissjóðum hefur beðið alvarlegan hnekki. Lífeyrissjóðirnir sjá það í uppsögnum á þessum samningum. Ég held að til þess að bregðast við því og byggja þetta traust upp aftur til framtíðar væri mjög vel við hæfi að skoða að þetta væri borgað út. Það er ekki víst að allir mundu nýta sér það en þetta væri borgað út til þeirra sem þyrftu á því að halda og menn gætu síðan byrjað frá grunni. Því hvaða réttlæti er fólgið í því að manneskja sem á kannski á bilinu tvær til fimm milljónir í séreignarlífeyrissparnaði og er hugsanlega að fara á hausinn vegna álíka hárra skulda annars staðar í bankakerfinu geti ekki notað þessa peninga núna? Ég held að engin huggun sé í því að fjölskyldur verði gjaldþrota en viti af því að við 62 ára aldur, eða 67 ára aldur, eigi þær einhvern pening.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég vildi nefna þetta vegna þess að ég held að þetta gæti verið liður í því að leggja heimilunum lið í þeim áföllum sem núna dynja á íslensku samfélagi.