136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:17]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingkonu Steinunni Valdísi Óskarsdóttur um flest atriði en stjórnarliðar eru ekki að tala um atvinnulífið. Þeir eru númer eitt, tvö og þrjú að hugsa um fjölskyldurnar í landinu sem er gott og vel — það er mjög af því góða að leyfa fólki að nota séreignarsparnað til að greiða niður skuldir. Vissulega má skoða þá hugmynd að skera niður skuldir en það er erfitt því að gæta þarf jafnræðis meðal allra. Hvers eiga þeir að gjalda sem hafa alltaf staðið í skilum og eru með allt sitt á hreinu? Eiga þeir að sitja hjá eða á að mæta þeim með einhverjum hætti líka? Þetta er ekki auðvelt en ég fagna því að fólk skuli vera að reyna að finna leiðir til þess að hjálpa þeim sem verst eru staddir.

Ég hefði viljað heyra álit hv. þingkonu um sjávarútvegsfyrirtækin, hvort hún og flokkssystkini hennar ætli virkilega að horfa upp á fólk sem verður gjaldþrota og tapar húseignum sínum, fer jafnvel á vergang eða lendir í alvarlegum hrakningum — hvort þau ætli að horfa upp á að sægreifarnir, sem hafa fengið fiskinn í sjónum afhentan og braska með nýtingarréttinn á honum, leigja hann, selja hann og veðsetja hann, fái að gera það áfram og að kerfið í sjávarútveginum verði óbreytt. Ég hefði viljað heyra það frá stjórnarþingmönnum hvernig þeir ætla sér að taka á þeim málum.