136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:25]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð. Ég heyri að við erum að flestu leyti sammála um það sem fram undan er varðandi heimilin og aðgerðir fyrir fólkið í landinu.

Eitthvað held ég að hv. þingmanni hafi misheyrst eða að hann hafi oftúlkað ræðu mína. Ég veit mætavel að þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram ótal tillögur í vetur og jafnvel svo að mörgum hefur þótt nóg um. Ég átti hins vegar við það að í umræðunum í dag, sem um 20 þingmenn hafa tekið þátt í, hefur ekki einn einasti þingmaður Vinstri grænna talað um þær hugmyndir sem þeir þó hafa lagt fram eða kynnt. Þingmenn Vinstri grænna hafa frekar kosið að nota tímann í að gagnrýna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, gagnrýna Seðlabankann, gagnrýna ríkisstjórnina. Áðan var gengið eftir svörum frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni um hugmyndir og var fátt um svör. Ég hefði haldið að hv. þingmenn Vinstri grænna hefðu átt að nota daginn til að tala fyrir öllum hugmyndum sínum í efnahagsmálum, kynna þær fyrir þjóðinni (Gripið fram í: Það er löngu búið að kynna þær.) því að þúsundir manna horfa á okkur. Það er löngu búið að kynna þær, er kallað utan úr sal. Það kann vel að vera en af hverju ekki að nota tækifærið þegar þjóðin horfir og hlustar eftir hugmyndum og úrræðum kjörinna fulltrúa og kynna þær hugmyndir í stað þess að standa enn eina ferðina og gagnrýna án þess að leggja eitthvað uppbyggilegt fram — þegar gengið er eftir því að hugmyndirnar séu kynntar verður fátt um svör.

Ég hefði kosið að menn hefðu notað umræðurnar í dag til þess að tala fyrir öllum þeim frábæru, góðu hugmyndum sem þingmenn Vinstri grænna segjast hafa talað fyrir í vetur. Þeir hafa sannarlega lagt fram margar hugmyndir (Gripið fram í.) en ég kvitta kannski ekki upp á að þær séu allar frábærar og góðar — ég efast ekki um að hv. þingmaður telur þær mjög góðar.