136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:41]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þegar staðan er orðin eins og hún blasir við okkur í dag, þegar við þurfum að horfast í augu við skuldir sem ekki eiga sér hliðstæðu í manna minnum, hvíli sú ábyrgð á kjörnum fulltrúum að líta í eigin barm áður en þeir leggja óþarfaklyfjar á þjóðina.

Það var af þeim sökum sem ég taldi upp þessa sparnaðarþætti áðan. Ég hefði kannski viljað bæta við í því skyni að mér finnst að við eigum að líta til alls launastrúktúrs hjá ríkinu. Við þurfum að athuga hvort verið er að semja um laun sem ekki eru í takt við það sem fram undan er á almennum markaði þar sem menn draga nú saman launakostnað. Þar sem fólk á almennum markaði sættir sig við lægri laun en það hafði fyrir mánuði síðan megum við hjá ríkinu ekki bjóða einstökum aðilum há laun á sama tíma.

Varðandi eftirlaunalögin er það óumdeilt að sú lagasetning hefur haft mikil áhrif í þjóðfélaginu. Mörgum hefur gramist mjög hvernig að þeim var staðið. Ríkisstjórnin hefur haft það á stefnuskrá sinni alveg frá því að hún tók við að endurskoða þau. Mér finnst ekki lengur hægt að bíða með þá endurskoðun. Ég verð samt að segja að ég hef engar töfralausnir í því sambandi. Mér finnst bara ekki hægt við þessar aðstæður að bíða lengi eftir því að gerð verði endurskoðun á eftirlaunalögunum. Hvernig menn fara að því, hvort þeir afnema þau með einu og öllu eða ekki, veit ég ekki. Ég treysti þeim sem vinna við það til að meta það.

Aðalatriðið er að við í þessum sal þurfum ekki að búa við tortryggni gagnvart störfum okkar á sama tíma og við leggjum gríðarlegar skuldir á þjóðina en viljum síðan ekki horfast í augu við okkar eigin stöðu. Það er meginmálið og ég legg áherslu á það í máli mínu.