136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hv. þingmanns. Ég held að það sé afar brýnt að við sýnum strax vilja þingsins í þessu efni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að samstaða myndist um það meðal þingmanna að taka strax á eftirlaunamálinu.

Ég veit að menn hafa hingað til velt fyrir sér ýmsum stjórnskipulegum hindrunum sem geti verið í vegi þess að réttindin séu tekin af og hvort þær kunni að valda ríkinu bótaskyldu. Ég held að tími lögfræðilegra vangaveltna af þeim toga sé löngu liðinn við þær aðstæður sem við búum við nú þótt það sé, eins og ég nefndi áðan, rétt að afnema þessi réttindi og leyfa þá þeim sem eru slíkar smásálir að vilja sækja forréttindi sín með dómi að gera það. Þeir verða þá sjálfum sér til skammar og að athlægi. En tjón ríkisins verður ekki meira en það hefði orðið óbreytt af að borga þeim þessi réttindi út.

Við skulum afnema þessi réttindi. Við skulum leyfa litlu aurapúkunum að koma og draga ríkið fyrir dóm til að fá sér til dæmd forréttindi sín. Þá skulum við borga þeim, nauðug viljug. En við skulum sýna fólkinu í landinu þá virðingu að bjóða því ekki upp á að verða að greiða þessi forréttindi að óbreyttu til eilífðarnóns án undangengins dóms.