136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Margt hefur verið sagt í þessum ræðustól í dag um aðdraganda bankahrunsins og aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Menn spyrja sig eðlilega: Hvað gerðist, hvernig metum við viðbrögðin og aðgerðirnar og ekki síst, hvað tekur við? En því miður fer það allt eftir svarandanum hver svörin eru við þessum stóru og alvarlegu spurningum. Því miður bendir hver á annan og gjarnan út í heim. Auðmennirnir, bankastjórarnir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, ráðherrarnir, allir virðast hafa verið að æfa lögreglukórinn í aðdraganda bankahrunsins. Enginn vissi neitt, enginn ber ábyrgð, hvað þá sök. Það alvarlega er að menn tala, sumir hverjir, eins og um smámistök hafi verið að ræða, smáslys sem óvænt bar að garði og það utan úr heimi. Alþjóðleg fjármálakreppa, segir forsætisráðherra, alþjóðleg lánsfjárkreppa, segja bankastjórarnir, Seðlabankinn brást á ögurstundu, segja auðmennirnir. Bara ef ekki hefði verið alþjóðleg fjármálakreppa, bara ef ekki hefði verið skrúfað fyrir lánsfjármagn í útlöndum til bankanna, bara ef Glitnir hefði fengið lánið á sunnudeginum, bara ef Seðlabankinn hefði borgað þessar 200 millj. punda fyrir Landsbankann á einhverjum mánudegi. Bara ef — og þá hefði allt verið í lagi eða hvað? Þá hefðu Íslendingar kannski getað haldið áfram á sömu braut skuldasöfnunar, bullandi viðskiptahalla og offjárfestingar. Nei, auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Dæmið er miklu stærra, alvarlegra og flóknara.

Mig langar til að reyna að takmarka mig aðeins við stöðuna eins og hún er í dag og það sem fram undan er. Mér finnst nefnilega mikilvægast að ekki verði haldið áfram á sömu braut, að Ísland morgundagsins verði ekki byggt á þeirri sömu stefnu um markaðsvæðingu samfélagsins og nú hefur beðið skipbrot. Það er ekki eins og hér hafi verið gerð smámistök sem hægt sé að leiðrétta og svo geti allt byrjað á nýjan leik. Hér voru gerð grundvallarmistök í hagstjórn og það var gert vitandi vits með peninga, atvinnu og efnahagsstefnu sem byggir á hagfræðikenningum nýfrjálshyggjunnar sem segir að ríkið eigi ekki að hafa afskipti af markaðnum og alls ekki af fjármálamarkaðnum. Í þessari kenningu er fólgin sú staðreynd að eftirlitið var slakt. Það var ekki tilviljun, það var ekki slys, það voru ekki mistök, það var pólitísk stefna. Eftirlitið með bönkunum og útrásinni, hvort heldur var í fjármálaeftirliti fjármálaráðuneyti eða Seðlabanka, var alveg í takt við þá stefnu sem öllu réð. Markaðurinn skyldi látinn í friði. Ríkið átti ekki að skipta sér af honum og eins og fyrr segir alls ekki af peninga- eða fjármálamarkaðnum. Afskiptaleysisstefnan er hluti af nýfrjálshyggjunni, „part av programmet“ eins og sagt er.

Þetta voru engin smámistök sem hægt er að kippa í liðinn. Hér er um að ræða skipbrot pólitískrar stefnu nýfrjálshyggjunnar sem hefur því miður náð að kollsigla íslensku efnahagslífi og staðan í dag krefst þess að hér verði allt tekið til endurmats. Við megum ekki gleyma misskiptingunni í samfélaginu. Við megum ekki gleyma á hvaða braut við vorum. Við megum ekki gleyma ofurlaununum annars vegar og sultarlaunum öryrkja og ellilífeyrisþega hins vegar sem boðið var upp á í þessu ríkasta samfélagi í heimi eins og forsætisráðherra kallaði Ísland gærdagsins í ræðu sinni í dag.

Ég ætla að rifja það upp að fyrir rúmu ári var skýrt frá því að slegið hafi verið nýtt Norðurlandamet, Íslendingar höfðu slegið Norðurlandamet. Tveir forustumenn eins íslenska bankans voru hæst launuðu stjórnendur á Norðurlöndum. Hvor um sig hafði 85 millj. sænskra króna eða um 800 millj. íslenskra króna þá í árslaun. Næstur á Norðurlöndum var forstjóri Nokia og hann var hálfdrættingur á við þessa menn. Árið 2003 þurfti 36 verkamenn til að afla þeirra launa sem samsvöruðu heildartekjum bankastjóra KB-banka. Á árinu 2006 þufti 600 verkamenn til að ná sömu fjárhæð en þá var Kaupþingsbankastjórinn með rúmar 64 millj. kr. í tekjur á mánuði. Þetta var Ísland gærdagsins, þetta var Ísland í gær. Samfélagsleg viðhorf og þarfir höfðu vikið fyrir viðskiptaviðhorfum og markaðshyggju. Stefnu sem bitnaði mjög illa á þeim sem minna mega sín og þeim sem ekki voru í bisness og þeim sem bjuggu úti á landi. Bilið jókst milli ríkra og fátækra og allir dönsuðu í kringum gullkálfinn, í kringum nýríka Nonna og félaga hans.

En hvernig er Ísland í dag? Við stöndum eins og ég segi á rústum nýfrjálshyggjunnar. Björgunaraðgerðirnar hafa því miður einkennst af því að ríkisstjórnin vill ekki grafa niður á meinið. Menn eru í bullandi afneitun í báðum flokkum. Ég sé því miður engin merki stefnubreytingar í aðgerðum eða vinnubrögðum því að bankarnir voru vart fyrr komnir í ríkiseign en búið var að helmingaskipta bankaráðunum á milli stjórnarflokkanna tveggja. Skipað var í bankaráð nýrra ríkisbanka til bráðabirgða með þeim hætti. Það átti að vera aðeins til örfárra daga en það bólar ekkert á öðrum vinnubrögðum. Næst voru settir þrír 2 millj. kr. menn í bankastjórastólana, konur auðvitað með svolítið lægri laun eins og gengur og þeir voru auðvitað ráðnir án auglýsingar og valdir beint innan úr bankakerfinu sjálfu. Launakjör þessara bankastjóra í ríkisbönkunum, nota bene, voru leyndarmál þangað til bankastjóri KB-banka, Kaupþings nýja, upplýsti að hann fengi 2 millj. kr. á mánuði. Þá opnaðist fyrir hvað hinir fengu.

Ég ætla að minna á íbúðalánin, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að aðstoða fólk sem lendir í vanskilum og erfiðleikum vegna húsnæðislána. Ráðherrarnir voru ekki fyrr búnir að lýsa því yfir að stefnt væri að yfirtöku Íbúðalánasjóðs á almennum íbúðalánum og menn mundu fá sömu aðstoð í öllum þessum bönkum og Íbúðalánasjóði en að fréttirnar voru uppfullar af fólki sem var ýmist neitað um fyrirgreiðslu vegna íbúðalána eða sagt að borga himinháar summur fyrir að lengja í hengingarólinni. Hver banki fór sína eigin leið og gerir enn. Það veit enginn hvert verður framhaldið. Verður frystingin á þessum lánum í fjóra mánuði? Í sex mánuði? Í tólf mánuði? Og hvað kemur hún til með að kosta lántakendur?

Herra forseti. Í gær tók þó steininn úr þegar í fréttum var frá því skýrt að innheimtufyrirtæki bjóði nú fyrirtækjum að stytta í ferlinu, þ.e. að kröfur sem ekki eru greiddar á eindaga fari umsvifalaust til innheimtufyrirtækis, fresturinn sé fjórir dagar í stað þess að venja hefur verið að gefa umþóttunarfrest í 20 daga áður en kemur til innheimtu. Ég kýs að spyrja fjármálaráðherra eða viðskiptaráðherra og ég óska eftir því, herra forseti, að leitað verði svara við því hver á Intrum Justica, innheimtufyrirtækið sem hér um ræðir og skýrt var frá að hegðaði sér svona í fréttum Ríkisútvarpsins í gær kl. 6. Er fyrirtækið enn í eigu Landsbanka Íslands, þ.e. í eigu íslenska ríkisins? Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar sem hér birtist um hertar innheimtuaðgerðir gagnvart skuldurum? Hvar var sú ákvörðun tekin? Er það svona sem á að fara með fólk sem er að missa vinnuna og missa húsnæðið? Var þetta samþykkt í bankaráði Landsbankans? Var þetta samþykkt í skilanefndinni? Var þetta samþykkt í viðskiptaráðuneytinu? Var þetta samþykkt í félagsmálaráðuneytinu? Það verða að fást svör við þessu, herra forseti. Það ríkir nefnilega algerlega óbreytt ástand í bönkunum, nú bara í nafni ríkisins en ekki einkafjármagnsins, og það er þess vegna sem reiðin bullar í fólki og er svo mikið vantraust á þessum aðgerðum sem því miður virðast beinast fyrst og fremst til að bjarga viðskiptalífinu en síður heimilunum og atvinnu manna.

Menn bera ekki lengur traust til ríkisstjórnarinnar. Menn vita sem er að hún ber ábyrgð á þessu ástandi, ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn. Sautján ár, sviðin jörð, segja menn á götunni. En spurningin er: Hvernig verður Ísland á morgun? Ég óttast, herra forseti, að aftur verði byggt á sama grunni. Traustið er farið, sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Og já, ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til að undirbúa eða hefja uppbyggingu og endurreisn íslensks samfélags. Hún þarf aðstoð til þess. Hún þarf aðstoð til þess frá þingi og þjóð en til þess þarf hún að treysta þingi og þjóð fyrir þeim upplýsingum sem hún býr yfir og þora að kynna aðgerðir sínar þannig að menn skynji að þær þoli dagsins ljós. Allt þetta ástand kallar auðvitað á opna rannsókn á efnahagslegum, pólitískum og siðferðilegum þáttum bankahrunsins. En við munum halda áfram og þjóðin mun taka sameiginlega á þessum vanda, en ef það á að gerast með núverandi ríkisstjórn verður hún að breyta um vinnubrögð.