136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan þá má þessi tilraun ekki mistakast og þess vegna verðum við að gera allt sem við mögulega getum til að reyna að tryggja að hún takist. Meðal þess sem þarf að gera er að vinna sem kostur er gegn mögulegum flótta fjármagns úr landinu og til þess er þessi stýrivaxtahækkun hugsuð.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það er ekki 100% öruggt að hún takist. En ég held einfaldlega að þær sérstöku aðstæður sem eru í íslensku efnahagslífi og eru ekki í öðrum þeim ríkjum sem hann vísar til, réttlæti að við tökum einfaldlega enga áhættu hvað varðar óðaverðbólgu. Því þótt óðaverðbólga geti í sjálfu sér verið vond í öðrum ríkjum þá hefur hún ekki þar í för með sér þann hrikalega skaða sem hún mundi hafa á Íslandi miðað við þann fjölda verðtryggðra skuldbindinga sem við búum við.

Varðandi þá merkimiða sem hv. þingmaður kýs að setja á hlutina með því að reyna að kenna mig við frjálshyggju Miltons Friedmans og gera lítið úr jafnaðarmennsku þá vísa ég því til föðurhúsanna. Hv. þingmenn Vinstri grænna sem hafa barist eins og ljón fyrir þeirri peningamálastefnu sem hér hefur ríkt á síðustu árum þurfa að átta sig á því að sá gjaldmiðill sem við búum við og það fyrirkomulag gjaldmiðilsmála sem við búum við hefur í för með sér gríðarlegt tjón fyrir launafólk í landinu, óásættanlega áhættu fyrir launafólk í landinu eins og nú er komið á daginn. Mér finnst slíkir þingmenn ekki eiga úr háum söðli að detta þegar kemur að því að kenna öðrum jafnaðarmennsku. Því afturhaldssemi vinstri grænna á sviði peningamála er einmitt stærsti áfellisdómurinn yfir framsýni þess flokks í efnahagsmálum og gerir afar hjákátlegt tal þess flokks um jöfnuð að öðru leyti.