136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum náttúrlega við þessar erfiðu aðstæður að grípa til allra aðgerða sem við mögulega getum til að reyna að halda fjármagni í landinu og vaxtahækkunin er hugsuð sem hluti af því. Auðvitað munu líka koma hindranir á meðferð fjármagns úr landinu. En aðgerðin er náttúrlega líka hugsuð til þess að gera það að valkosti að koma með fjármagn inn í landið. Eftir stendur að við erum í þröngri stöðu að reyna að setja á markað gjaldmiðil sem við töldum okkur ekki fært að setja á markað nema með sérstökum aðgerðum fyrir sjö árum síðan og reynslan af því var slæm. Þetta er nú hinn kaldi veruleiki.

Ég fagna því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson útilokar ekki gjaldmiðilsskipti því það held ég að sé brýnasta hagsmunamál íslensks almennings. Ég held satt að segja við þessar erfiðu aðstæður, þegar við erum að setja á markað krónu sem hefur enga tiltrú þá væri besta leiðin til að tryggja tiltrú á hana yfirlýsing í dag um aðildarumsókn að Evrópusambandinu vegna þess að þá mundu menn hafa fyrirheit um hvert væri stefnt með krónuna. Við getum ekki gefið sams konar fyrirheit og við þó gátum gefið 2001, um að við værum að fara eftir ákveðinni peningamálastefnu, um að við hefðum seðlabanka sem ynni eftir ákveðnum grundvallarmeginreglum, vegna þess að það er allt farið.

Ef við ætlum að reyna að tryggja stöðugleika krónunnar þá er mikilvægt að geta gert hvort tveggja í senn. Við getum nýtt hana sem hagstjórnartæki vegna þess að hún er á okkar valdi en við getum líka reynt að tryggja stöðugleika hennar á markaði með því að lýsa því yfir að til lengri tíma litið stefnum við að því að hún breytist í evru þegar við uppfyllum skilyrði þar um. Það er mjög mikilvægt að tvinna þetta tvennt saman við þær aðstæður sem nú eru. Í því felst engin þversögn heldur þvert á móti eina vonin til þess að reka íslensku krónuna á næstu árum með einhverjum stöðugleika. Ég óttast það að ef menn gera það ekki stöndum við frammi fyrir því að gjaldmiðillinn verði óstöðugri en nokkru sinni fyrr á næstu árum.