136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í dag hefur farið fram ítarleg umræða um stöðuna í efnahagsmálum og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gerði hæstv. forsætisráðherra grein fyrir málinu með skýrslugjöf fyrr í dag.

Ég tel að umræðurnar hafi verið yfirgripsmiklar og málefnalegar í öllum meginatriðum þó að sjálfsögðu komi til þess í snarpri umræðu af þessum toga að ýmis orð fljúgi á milli manna og sumum sárnar það sem sagt er og öðrum finnst að það sé ekki málefnalegt. En í öllum meginatriðum tel ég að það hafi verið.

Ég er þeirrar skoðunar að fátt handbært hafi í raun verið í ræðu hæstv. forsætisráðherra, hún var almenn yfirferð yfir málið og að miklu leyti afsökun á því hvernig að öllu hefur verið staðið. Mér fannst vera gæðamunur á framlagi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra því hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, bar þó við að lýsa því hverjar ættu að vera pólitískar forsendur í endurreisn á Íslandi eins og það blasti við henni. Í þeirri lýsingu sá ég ekki, með pólitísku gleraugunum mínum, rúm fyrir Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn.

Við erum þeirrar skoðunar — og það hefur komið hér fram í máli þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — að illa hafi verið haldið á málum að mörgu leyti. Við hefðum á fyrri stigum átt að leita til vina okkar á Norðurlöndum, einkum Norðmanna. Hér hefur verið nokkuð orðaskak um það hvort aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið skilyrði eða forsenda fyrir slíkri fyrirgreiðslu. Ég er sannfærður um að svo hafi ekki verið, í upphafi að minnsta kosti, og við hefðum verið betur sett, jafnvel með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ef við hefðum verið með ráðgjafateymi undir norrænni forustu. Vegna þess að þá hefði verið annars konar yfirbragð, annars konar pólitísk sýn á málin en er.

Auðvitað er afar ósannfærandi og í raun ekki boðlegt hversu margræð svör ráðamanna eru um það hvað olli stýrivaxtahækkun Seðlabankans úr 12% í 18%. Bent hefur verið á það að minnsta kosti þrjár skýringar séu á ferðinni og athygli vekur auðvitað tilkynning frá Seðlabanka Íslands þar sem hann tekur að sér að ákveða að einn liður í svokölluðu samningsuppkasti eða samningsgerð, Letter of Intent, á milli ríkisstjórnar Íslands og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé ekki lengur trúnaðarmál og veitir upplýsingar um hvað felst í þessum 19. tölulið, þ.e. að stýrivextir skuli hækkaðir í 18%. Þetta vekur auðvitað athygli og hlýtur að vekja upp spurningu um það hvort Seðlabankinn sé orðinn eins konar fréttafulltrúi ríkisstjórnar Íslands. Hvað á það að þýða að svona sé staðið að málum? Hvað þá með hina liðina 18 — og kannski eru þeir miklu fleiri en þessir 19? Af hverju má ekki segja þingi og þjóð frá því hvað í þeim felst? Er það vegna þess að stjórnarmenn í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru svona viðkvæmir fyrir því að það geti frést hvaða efni þeir ætla að fjalla um? Hvert er leyndarmálið? Er ekki hægt að senda þeim þetta bara í tölvupósti þannig að þeir geti séð það áður en það er birt hér þingi og þjóð?

Leynd veldur alltaf tortryggni. Auðvitað er ekkert í þessu sem á að vera svo mikið leyndarmál að þingið og þjóðin eigi ekki að fá upplýsingar um það hvað ráðamenn þjóðarinnar eru að hugsa í þessu sambandi. Það getur ekki spillt fyrir. Það er algjörlega óhugsandi. Miklu betra er fyrir ráðamenn að standa þannig að málum að segja þingi og þjóð hvað þeir hugsa og fá fólk í lið með sér í þeim málflutningi. Nú, eða að gagnrýnisraddir komi fram og menn taki þá umræðu. Þetta vildi ég segja um þessa þætti, virðulegur forseti.

Ég ætla að fara örlítið í það sem ég tel að eigi að vera brýnustu verkefni okkar á næstunni. Atvinnuástandið er að mínu viti algjört lykilatriði. Það á að tryggja eins hátt atvinnustig og unnt er og sporna við atvinnuleysi og landflótta. Í nýrri hagspá Alþýðusambands Íslands, sem mér barst í hendur í dag, er spáð að hér geti orðið á næstu árum 10% atvinnuleysi umfram ný störf, sem er gríðarlega hátt hlutfall af vinnuafli okkar og miklu hærra en við höfum lengi séð, ef nokkurn tímann.

Opinberir aðilar verða að stuðla að margháttuðum lausnum til að sporna við atvinnuleysi, viðhaldsverkefnum og framkvæmdum vítt og breitt um landið. Styðja við hvers konar sprotaverkefni t.d. í samstarfi við Atvinnuleysistryggingasjóð og fleiri aðila. Fjölga náms- og endurmenntunarmöguleikum og margt fleira. Það þarf að styðja við mikilvægar grunnatvinnugreinar eins og sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu til þess að skapa fleiri störf og fá meiri verðmæti út úr þessum atvinnugreinum. Við þurfum að styrkja velferðarkerfið. Á þessum tímum er mikilvægt að við höldum hvert utan um annað og styðjum við hvers kyns félagsleg úrræði. Mikilvægt er að fólk geti leitað sér félagslegrar ráðgjafar og stuðnings hjá velferðarkerfi sveitarfélaganna. Mikilvægt er að styrkja afkomu sveitarfélaganna því þau munu sannarlega gegna lykilhlutverki og bera þyngstu byrðarnar.

Ég nefni m.a. skólamáltíðir og leikskóla sem eru mikilvægir útgjaldapóstar hjá mörgum fjölskyldum í landinu og við ættum að hugleiða hvort við getum með einhverjum hætti komið til móts við þær þannig að fjölskyldur skeri þessa þætti ekki niður við sig á þessum erfiðu tímum.

Við þurfum að tryggja afkomu heimila og fyrirtækja í landinu. Við þurfum sérstakar ráðstafanir vegna íbúðalána og skuldastöðu fyrirtækja t.d. með vaxta- og húsnæðisbótum, lengingu lána eða niðurfærslu lána eins og hér hefur verið nefnt í umræðunni og ég tek undir.

Að sjálfsögðu verðum við að vinna bug á verðbólgunni. Það er sársaukafullt verkefni en það er líka óhjákvæmilegt. Í því efni vil ég nefna að við þurfum að taka á launadeilum í samfélaginu og koma á meiri jöfnuði. Ofurlaunin sem hafa tíðkast í bankakerfinu og annars staðar, m.a. í stjórnunarstöðum hjá ríkinu, verða að heyra sögunni til.

Vexti verður að lækka. Þeir eru að sliga atvinnulífið og fjölskyldurnar í landinu og stýrivaxtahækkun Seðlabankans er að mínu viti tvíbent vopn í þeirri baráttu. Hún er í anda harðrar peningamálastefnu og meðal fræðimanna eru afar skiptar skoðanir um þessa leið svo ekki sé meira sagt. Hún hefur mistekist víða um lönd þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt hönd á plóg.

Auðvitað vonumst við til þess að svo verði ekki. Að þetta sé skammvinn hækkun og það takist að slá á verðbólguna með henni. Ég held hins vegar að miðað við umfang og „aktívitet“ ef svo má segja, virkni hagkerfisins, að þá sé alls ekki víst að þessi leið dugi eða sé rétt til þess, heldur þvert á móti geti hún fyrst og fremst virkað eins og frystir sé skrúfaður úr mínus 12 gráðum í mínus 18.

Við þurfum líka að styrkja tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Það kostar að sjálfsögðu álögur og þá er mest um vert að þeir sem eru aflögufærir beri þær byrðar. Í því efni er fróðlegt að huga að því hvernig þróunin hefur verið. Í nýlegri skýrslu frá fjármálaráðuneytinu, sem að vísu hefur ekki verið dreift mjög víða, kemur loks fram staðfesting á því sem m.a. Stefán Ólafsson prófessor hefur haldið fram í gegnum árin að tekjulægstu hóparnir í samfélaginu hafi tekið á sig auknar skattbyrðar á meðan tekjuháu hóparnir hafa fengið skattalækkun. Það er fróðlegt að sjá að fjármálaráðuneytið sem mótmælti hér og fór í hvern leiðangurinn á fætur öðrum gegn Stefáni Ólafssyni prófessor viðurkennir það sem hann hefur verið að rannsaka.

Að sjálfsögðu verðum við að endurskoða peningamálastefnuna og gjaldmiðilsmálið þarf að sjálfsögðu að taka til umfjöllunar. Þar verður allt að vera undir, líka hin veika íslenska króna þótt nú sé óhjákvæmilegt að styrkja hana eins og kostur er, enda skiptir gríðarlegu máli komi til þess að við tökum upp annan gjaldmiðil, hver sem hann kann nú að vera, á hvaða gengi það er gert og við hvaða efnahagslegu aðstæður það er gert. Þar verðum við að koma fram af styrkleik þegar að því kemur og ef svo verður.

Þrátt fyrir mótlæti verðum við að vera bjartsýn. Við höfum áður séð hann svartan, kannski ekki eins svartan og nú en engu að síður. Við getum tekist á við erfiðleikana saman. En þá verður líka ríkisstjórnin að treysta þingi og þjóð fyrir því sem hún er að gera og taka ákvarðanir í sátt og samstöðu og hleypa fleirum að stefnumótuninni. Annars er hún algjörlega á berangri — eins og kannanir sýna að vísu að ríkisstjórnin sé nú. Við eigum að endurreisa íslenskt samfélag með félagslegt réttlæti og jöfnuð að (Forseti hringir.) leiðarljósi og á grundvelli sjálfbærrar atvinnustefnu og ganga hnarreist til móts við komandi tíð.