136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að stjórnarflokkarnir yrðu væntanlega samstiga í að tryggja jöfnuð og félagslegt réttlæti á næstu missirum eins og hann orðaði það. Hann tók ekki dýpra í árinni en að segja næstu missiri. Það kann auðvitað vel að vera en þann samhljóm hef ég ekki heyrt í ræðum þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað. Þeir hafa m.a. talað sérstaklega gegn öllum hugmyndum um tekjuauka hjá ríki og sveitarfélögum sem t.d. hæstv. utanríkisráðherra boðaði í ræðu sinni vegna þess að þeim er illa við að innheimtar séu tekjur, þeir vita að tekjuskattur er leið til tekjujöfnunar. Jafnaðarmenn og róttækir vinstri menn hafa alltaf lagt áherslu á tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að tala um það. Það er undarlegt að heyra hv. þingmann komast svo að orði að stjórnarflokkarnir munu verða samstiga í þessu efni miðað við þann málflutning sem hér hefur verið haldið uppi af hálfu sjálfstæðismanna. Við skulum bara sjá hvað framtíðin ber í skauti sér í því efni næstu vikur, mánuði og kannski missiri.

Hvað krónuna snertir og gjaldmiðilsmálið sagði ég einfaldlega að við þyrftum að endurskoða peningamálastefnuna og gjaldmiðilinn. Þar yrði allt að vera undir, líka hin veika íslenska króna, þótt ég hafi síðan lagt áherslu á að nú væri verkefni að styrkja hana eins og kostur væri. Hv. þingmaður veit nákvæmlega hvað ég á við í þessu efni og það þarf ekki frekari útskýringa við. Ég á við að við þurfum ræða um hvort sú skipan gjaldeyrismála sem við höfum haft til þessa þjóni hagsmunum íslensks almennings.