136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sá kafli í ræðu hv. þingmanns vakti athygli mína þar sem hann fjallaði um fjórða valdið í þjóðfélaginu sem eru fjölmiðlar en hv. þingmaður er, eins og menn vita, fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands sem ég er enn biðfélagi í og hann væntanlega líka.

Það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlar beri mikla ábyrgð í lýðræðisskipan okkar og ekki síst þegar samfélagið er jafnfjölbreytt og hraðinn og alþjóðavæðingin jafnmikil og þau eru. Við getum ekki verið sérfræðingar í öllu eða fylgst nákvæmlega með. Það er hlutverk fjölmiðla að leita svara, að rýna undir yfirborðið og veita upplýsingar til almennings á gagnrýninn hátt.

Við vitum að fjölmiðlar hafa verið gagnrýndir nú að undanförnu og þeir hafa líka beitt sjálfsgagnrýni og komist að þeirri niðurstöðu að þeir hafa kannski flotið með straumnum eins og margir gerðu, ýtt undir neyslukapphlaupið og aðdáunina á því sem ég vil kalla „nýríka Nonna“ og félögum hans.

Ein ástæðan fyrir tortryggni gagnvart stjórnvöldum, ríkisstjórn, ráðuneytum og fjölmiðlum í samfélaginu eru fréttir sem bárust af fundi sem haldinn var í húsakynnum Háskólans í Reykjavík, að mig minnir, fyrir nokkrum dögum. Þar voru saman komnir, að ég held, þrír aðstoðarmenn ráðherra, þar á meðal sá sem hér talaði, hv. þm. Róbert Marshall, og útvaldir fulltrúar fjölmiðla. Ég vil nota tækifærið og spyrja þingmanninn og aðstoðarmann samgönguráðherra: Hvað fór fram á þessum fundi, hverjir voru boðaðir til hans og er reglan sú að menn haldi fundi sem þennan með útvöldum vinum sínum á fjölmiðlum í ríkisstjórninni?