136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt athyglisverð og vel upp byggð ræða hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Ég ætla ekki að fara mikið efnislega í hana nema upphafið þar sem hann lagði út af því að nú kæmi hver á fætur öðrum fram á völlinn og segðist hafa séð þessa þróun fyrir en í raun hefði enginn séð hana fyrir. Það var kjarninn í því sem hv. þingmaður sagði í upphafi síns máls.

Ég vil þó segja að auðvitað hafa mjög margir á undanförnum árum varað við þeirri þróun sem hefur orðið í okkar efnahagsmálum, geigvænlegum viðskiptahalla, þessari miklu og takmarkalausu — ef svo má segja — útrás og skuldbindingum með mikilli uppbyggingu bankakerfisins þannig að bankageirinn var orðinn tí- til tólfföld þjóðarframleiðsla okkar.

Það má segja að auðvitað sá enginn fyrir að allt mundi gerast í einu en menn áttu að sjálfsögðu, m.a. eftirlitsstofnanir okkar, að taka mark á viðvörunarbjöllunum sem voru í gangi um stærð bankakerfisins. Jafnvel þótt ekki hefði annað gerst en að einn af stóru bönkunum þremur hefði orðið gjaldþrota, og þurfti ekki endilega alþjóðlega fjármálakreppu til, hefðu fylgt því gríðarlegar skuldbindingar fyrir íslenska þjóð. Allar þessar viðvörunarbjöllur klingdu en það tók enginn mark á þeim og enginn tók að sér að grípa til ráðstafana. Ríkisstjórnirnar, bæði sú sem nú situr en einnig og ekki síður sú síðasta, létu þetta allt saman eiga sig. (Forseti hringir.) Það er auðvitað það sem er blóðugt í þeirri stöðu sem við erum í nú.