136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að fellibylurinn hefði verið langtum meiri og verri en menn hefðu nokkurn tíma séð fyrir. Ég sagði reyndar líka að jafnvel þótt ekki hefði komið til hinnar stóru og miklu alþjóðlegu fjármálakreppu voru samt sem áður blikur á lofti í okkar efnahagslífi hvað varðar þær skuldbindingar sem við vorum að taka á okkur með þessari miklu uppbyggingu og miklu stærð bankakerfisins, þannig að því sé til haga haldið.

Hins vegar voru einnig farin að koma fram teikn fyrir ári síðan í Bandaríkjunum, í ágúst eða september árið 2007, sem áttu að vera mönnum umhugsunarefni. Þetta var rætt m.a. hér á vettvangi Alþingis. Það var talað um mikilvægi þess að efla gjaldeyrisvaraforðann æ ofan í æ en aldrei var talinn vera rétti tíminn til þess að gera það. Þannig að þó að þessi kreppa sé miklu meiri og alvarlegri en við sáum fyrir og gerðum okkur grein fyrir stefndi samt sem áður í að mikil vandræði gætu orðið í okkar samfélagi. Fyrir utan það sem menn gátu ekki séð fyrir átti bara það sem mönnum átti að vera ljóst að vera tilefni til þess að gripið yrði til ráðstafana, m.a. þess að efla gjaldeyrisvaraforðann, en því miður var það látið reka á reiðanum.

Síðan er hægt að segja að það hafi engan tilgang í sjálfu sér að vera að rifja þetta allt upp því nú sé verkefnið að takast á við þá stöðu sem við erum í. Auðvitað má segja að það sé rétt að við verðum að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í núna en það má bara ekki gleyma þessu þegar menn gera dæmið upp og taka ákvörðun um í hvaða átt við ætlum að stefna héðan í frá. (Forseti hringir.) Kúrsinn má ekki verða sá sami.