136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:33]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var að mörgu leyti magnþrungin ræða sem hv. þm. Helgi Hjörvar hélt hér áðan. Hann kom mjög mikið inn á Evrópusambandið og hversu mikils virði það samstarf væri, hversu vel þessar þjóðir bökkuðu hver aðrar upp og þá sameiginlegu samfélagslegu ábyrgð sem þær deila með sér. Ég get að mörgu leyti tekið undir þetta. Ég er enginn sérstakur aðdáandi Evrópusambandsins en enginn sérstakur andstæðingur heldur.

Mér hefur þó fundist að undanförnu að um margt hafi — já ég er hér í andsvörum og ætlast til að þingmaðurinn hlusti. Ég var að spá í það, ef ég hefði spurt hv. þm. Helga Hjörvar að því í gær að ef upp kæmi bankakreppa í Danmörku, hvort honum hefði ekki þótt líklegast að stuðningur hefði komið frá hinu Evrópska efnahagssvæði.