136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get út af fyrir sig tekið undir ýmislegt af því sem hann sagði. Ég held ekki að maður eigi að vera með eða á móti þessu samstarfi. Ég held að maður eigi bara að taka þátt í því. Það eru bæði kostir og gallar við skrifræðið í Brussel. Það eru kostir og gallar við Evrópuþingið. Það eru kostir og gallar við ráðherranefndina.

Hv. þingmaður spyr um Danmörku og með hvaða hætti Danir takist á við viðfangsefni sín í dag en þar eins og annars staðar í heiminum er sannarlega líka fjármálakreppa. Það segir okkur auðvitað til um hvers konar erfiðleikar eru að gamalgróin viðskipta- og fjármálaþjóð eins og Danaveldi sjálft, Danir sem lengi voru nýlenduherrar okkar séu í þeim erfiðleikum sem þeir nú eru.

Þar ræða menn mjög ákaflega og það er skoðun forsætisráðherra Danmerkur, sem er sömu stjórnmálaskoðunar og er í systurflokki hv. þingmanns í Danmörku, að það valdi þeim verulegum erfiðleikum að hafa hafnað upptöku evrunnar á sínum tíma. Þrátt fyrir að þeir hafi næstum því farið alla leiðina og ákveðið að tengja dönsku krónuna með 2,5% vikmörkum við evruna þá reynist það þeim mjög erfitt núna. Og hvaða sögu segir það ekki um þá fráleitu ákvörðun okkar, 300.000 manna þjóðar, að reyna að halda hér á floti í Atlantshafinu minnstu gjaldmynt í heiminum þegar Danir ræða það í alvöru að þeir hefðu þurft að vera með evruna að vopni í þeim erfiðleikum sem þeir eru að fást við í núna? Ef þeir þyrftu á því að halda hversu mjög hefðum við ekki þurft á hinu sama að halda?