136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst að við hv. þingmaður séum í mörgum atriðum sammála hvað þetta varðar. Ég held að það ætti að vera okkur mikið umhugsunarefni að við höfum í raun og veru skapað þá stöðu sjálfviljug á undanförnum árum að fjárfestar, gjaldeyriskaupmenn, vogunarsjóðir og hinir ýmsu aðilar hafa á víxl getað tekið hér stöðu með og á móti krónunni, eins og það er kallað, í gjaldeyrisbraski og haft í ávinning af því gríðarlegar fjárhæðir, trúlega tugi milljarða í það minnsta á hverju einasta ári mörg undanfarin ár. Þeir fjármunir vaxa ekki á trjánum. Þeir duttu ekki af himninum ofan. Í lok dagsins þarf einhver að greiða hagnaðinn til spákaupmannanna, hagnaðinn sem þeir höfðu af því að hafa að leiksoppi þá tilraun okkar til þess að halda úti þessari flotmynt.

Ég vil leyfa mér að efast um að með þá sáralitlu fjármuni sem við tölum um að fá frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hugsanlega nágrönnum okkar á Norðurlöndunum séum við í neitt betri aðstöðu til þess að glíma við spákaupmenn á markaði því að ég er hræddur um að þeir hafi í rassvasanum umtalsvert meira en einhverja 4–5 milljarða dollara til þess að taka stöðu með eða á móti því sem við ætlum að reyna að setja á flot aftur. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi trú á því að við með þá litlu varasjóði (Forseti hringir.) sem við höfum nú getum yfir höfuð rekið hér peningamálastefnu sem byggir á því að koma krónunni á flot aftur.