136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar spurði mig hvort að ég teldi ekki að við hefðum átt að fylgja tillögum Samfylkingarinnar þegar árið 1999 og ganga inn í Evrópusambandið og stefna að Maastricht-skilyrðunum og evruaðild.

Ég tel svo ekki vera. Ég held hins vegar að það sé miklu mikilvægara fyrir okkur að ræða núna, frekar en hvaða stefnu við höfum haft í fortíðinni, hvernig við ætlum að horfa til framtíðar, hvaða skref við ætlum að taka á næstu árum til þess að byggja hér upp þann stöðugleika sem nauðsynlegur er fyrir íslenskt efnahagslíf.

Ég vek athygli hv. þingmanns á því að ég mælti hér fyrir ákveðinni sáttaleið sem er þess eðlis að bæði stuðningsmenn og andstæðingar upptöku evru og aðildar að Evrópusambandinu ættu að geta fallist á hana. Maastricht-skilyrðin sem slík eru skynsamleg efnahagsleg markmið, þau eru skynsamleg hagstjórnarmarkmið. Ég held að það væri í rauninni meiri ástæða fyrir okkur að sameinast um þau markmið, vinna að tillögum og leiðum sem færa okkur nær þeim frekar en að eyða tíma okkar í að deila um hvort við ætlum að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Ég held að bæði fyrir andstæðinga og stuðningsmenn evruaðildar og Evrópusambandsaðildar ættu Maastricht-skilyrðin að geta verið ákveðið leiðarljós. En það er hins vegar rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar segir að við núverandi aðstæður erum við býsna langt frá því að ná þeim markmiðum. Því er það ef til vill bjartsýni að stefna að þeim en hvort sem við viljum (Forseti hringir.) vera innan eða utan Evrópusambandsins og myntsamstarfsins eru þetta markmið sem við ættum að stefna að.