136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:31]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að færeyska þjóðin hefur sýnt það og sannað að henni er mjög umhugað um að velgengni fái að ríkja á Íslandi. Færeyingar hafa með boði sínu um lán til Íslendinga sýnt takmarkalaust göfuglyndi sem þegar er skráð í íslenska sögu. Þetta hafa þeir gert vegna þess að þeir hafa séð að við erum í miklum vanda, svo miklum, eins og fram hefur komið, að íslenska þjóðin þarf að taka mikil og stór lán. Gríðarlega háar upphæðir, út af ástæðum sem margir hafa rakið og stafa af því að íslenskir bankar fóru í gjaldþrot. Svona í stuttu máli sagt og ég ætla ekki að segja meira um það, herra forseti.

Rætt hefur verið um hvar eigi að fá lánið. Hvað sé skynsamlegast og réttast. Ég held að allir eða langflestir séu á þeirri skoðun að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leita eftir láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé rétt vegna þess að með því að fá lán þar fæst alþjóðleg viðurkenning á því að það sem við gerum í endurreisn okkar og viðleitni til að bæta hag landsins fari eftir eðlilegum leiðum.

Einnig má velta því upp, þegar talað er um hvernig fjármálaheimurinn hefur verið, að fjármálalíf íslenska samfélagsins hefur verið mjög óábyrgt og glannalegt og menn hafa farið mörgum orðum um hversu óábyrgt það hefur verið. Miðað við það er varla hægt að vænta þess að eitthvert eitt ríki sé tilbúið til að lána Íslendingum fleiri hundruð milljarða, eða hvað á nú að segja háa tölu, án nokkurra skilyrða eða ákvæða.

Alveg ljóst er, herra forseti, að vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir er það mikill að það liggur í augum uppi að framtíðin, næstu vikur, næstu mánuðir og jafnvel ár verða ekki eins og árin sem eru nú nýliðin. Þannig er það. Fyrir þjóð sem er í þeirri stöðu sem Ísland er er mjög óábyrgt að segja að hægt sé að koma inn með fjármagn. Breyta ástandinu með því og fá peninga svo allt verði eins og áður. Við stöndum frammi fyrir vandamálum og á það hefur margsinnis verið bent.

Hvernig ætlum við að taka á vandamálunum og hvert munum við horfa? Margir horfa nú þegar fram á atvinnuleysi eða eru orðnir atvinnulausir og til þess þurfum við að líta. Hvaða möguleika er hægt að koma með til að fólk geti fengið vinnu aftur? Okkar ágæti utanríkisráðherra, hæstv. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talaði um það í ræðu sinni í dag að við ættum að efla samtök iðnaðarins, samtök sprotafyrirtækja með því að Atvinnuleysistryggingasjóður taki upp samstarf við þau með sama hætti og hann átti að taka upp samstarf við sjávarútvegsfyrirtæki sem urðu fyrir tjóni vegna niðurskurðar á fiskveiðiheimildum.

Herra forseti. Skoðun mín og margra annarra er að í lagi sé að auka þorskveiðiheimildirnar. Þær eigi þó ekki að fara beint á skipin eftir sömu reglum og verið hefur, heldur á að setja heimildirnar á markað og gefa þannig mörgum möguleika á þeim.

Um þessar mundir eru einnig margir byggingarverkamenn að missa vinnuna. Náttúrlega vegna þess að ekki verður meira byggt í þessu landi að svo komnu máli, því í og kringum borgina — t.d. í höfuðborginni og í Kópavogi, Garðabæ og ég veit ekki hvort á að segja í Mosfellsbæ — og víða um land er fullt af tómu húsnæði. Ekki halda menn áfram að byggja stóru musterin, sem hafa verið byggð að undanförnu. Þá missa byggingarverkamennirnir vinnuna og þurfa að fá aðra. Hver á hún að vera? Ég legg til að við reynum að sjá tækifæri í sjávarútveginum, í því að gefa fleirum möguleika á aðgangi að fiskimiðunum og þá væri einmitt tilvalið, eins og ég segi, að auka veiðiheimildir. Leyfa þeim sem eru með minni útgerðir og minni báta að bjóða í og róa.

Af því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi sprotafyrirtæki í ræðu sinni í morgun verð ég að nefna atvinnugrein sem miklar vonir eru bundnar við en hefur ekki verið í jafnmikilli framrás og ætla hefði mátt, kannski vegna þess að meira rannsóknarfé hefur vantað inn í hana. En það er þorskeldi. Ég var í för með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vestur á fjörðum þar sem við sáum það glæsilega starf sem þar hefur átt sér stað og viðleitni til að efla nýja atvinnugrein og vera með þorskeldi. En forsvarsmenn þess kvörtuðu undan eða bentu á að meira rannsóknarfé vantaði til að ýta undir atvinnugreinina til þess að þróunin gæti orðið örari og afköstin og arðsemin meiri.

Mig langar líka, herra forseti, að nefna grein sem lætur lítið yfir sér, kræklingarækt. Í Evrópu — ef segja má það orð hér — er etinn kræklingur í hundruð þúsunda tonna vís og fleiri þúsundir manna hafa lagt sér krækling til munns bara í dag. Ég spyr: Hvers vegna hafa Íslendingar ekki selt krækling til annarra landa í mörg ár? Þetta er atvinnugrein og atvinnuvegur, sem stundaður er í mörgum löndum en við höfum ekki sett nógu mikið í það. Þetta er eitt af því sem ég tel að við ættum að gera. Vegna þess að nú er minni markaður, með fullri virðingu fyrir þeim eðlislétta málmi, fyrir ál og ekki svo mikil ásókn í að kaupa það. En það er alltaf ásókn í mat og í heimi þar sem fólki fjölgar stöðugt þarf að framleiða meiri mat. Að þessu skulum við gefa gaum, herra forseti.

Mig langar til að fara inn á margt annað. En þegar fólk lendir í vanda þá lítur það í allar áttir og spyr: Hvernig losna ég úr vandanum? Hvernig kemst ég út úr þessum vandræðum? Þótt ýmsir hafi haldið því fram að ráðamenn þjóðarinnar hafi ekki bent á ýmsar leiðir þá hefur það verið gert. Auðvitað verður vandinn ekki leystur einn, tveir og þrír og það strax á morgun, alveg eins og maður fari út í búð og kaupi sér bíl á margar milljónir og ætli svo bara að borga seinna. Þetta tekur (Forseti hringir.) allt sinn tíma.