136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:43]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Ég skildi spurninguna ekki alveg en reikna með því að hv. þingmaður hafi verið að spyrja mig hvort ég teldi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins óæskilega fyrir íslenska hagsmuni (KÓ: Eða hvort við ættum að ganga inn?) eða hvort við ættum að ganga í það. Ég vil ekkert tjá mig um það. Mér finnst að þessi mál eigi að skoða mjög vel. Þegar við fjöllum um hag lands og þjóðar gerum við það á mjög hlutlausan hátt án þess að vera í einhverjum, hvað eigum við að segja, lokuðum, föstum hólfum. Annaðhvort er það svona eða hinsegin. Við verðum að hafa opinn huga fyrir því sem er að gerast í kringum okkur.

Ég er t.d. á þeirri skoðun, fyrst verið að tala um Evrópumál, að íslenska krónan sé ekki helgitákn og á ekki að vera slíkt. Sumir eru þannig þenkjandi að þeir telja að alls ekki megi sleppa henni eða láta hana fara. En hún er í raun og veru bara tákn fyrir ákveðin verðmæti. En umhverfið sem við erum komin inn í núna, efnahagsumhverfi og aukin samskipti við aðrar þjóðir hefur gert það að verkum að menn hafa spilað á íslensku krónuna. Veðjað með hana, keypt hana, selt hana og búið til alls konar bréf og dót í kringum hana sem hefur m.a. valdið þeirri slæmu stöðu sem við erum í umfram aðra.