136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[10:39]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst leiðrétta það að ég var ekki að fjalla efnislega um hækkun stýrivaxta, ég er ekki að gagnrýna það. Ég er að gagnrýna það hvernig þetta birtist þjóðinni og nógir eru erfiðleikarnir samt hjá íslensku þjóðinni þó að hún þurfi ekki að fá þessi misvísandi skilaboð endalaust frá ríkisstjórninni, misvísandi skilaboð frá stjórnarflokkunum og svo bætist Seðlabankinn við. Í yfirlýsingunni sem kemur frá Seðlabankanum er verið að réttlæta þessa gjörð en jafnframt sagt að hún sé alls ekki tekin af bankanum sjálfum, hún sé tekin af annarri alþjóðlegri stofnun. Þar með erum við ekki lengur að fara að lögum er varða Seðlabankann sem segja að bankinn sé sjálfstæð stofnun og taki ákvörðun um stýrivexti í landinu. Þetta er aðalatriðið og hæstv. forsætisráðherra verður að einbeita sér að því að svara þessu. Þetta er stóra málið. Sennilega hefur hann ekki reiknað með því að Seðlabankinn kæmi fram með þessum hætti og segði frá öllu málinu. (Forseti hringir.) En í Seðlabankanum stjórnar maður sem lætur ekki berja á sér eins og honum hefur greinilega fundist gert í gær og svarar fullum hálsi sem er óþolandi og segir okkur líka að það þarf að gera breytingar í Seðlabankanum.