136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði áðan og mér vannst ekki tími til að svara því hvort breyta hefði þurft lögunum um Seðlabankann áður en síðasta vaxtaákvörðun var tekin. Það tel ég ekki vera. Það er auðvitað bankinn sjálfur sem formlega tekur þessa ákvörðun lögum samkvæmt og kynnir hana, enda eru þetta vextir Seðlabankans í viðskiptum við aðra banka. Það er ekkert vafamál um það. En að baki þessari ákvörðun liggur samkomulag sem gert hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að tryggja fyrirgreiðslu á hans vegum. Það liggur fyrir samkomulag þriggja aðila, tveggja íslenskra, ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, (ÖJ: Leynibréf.) það verður undirritað af báðum aðilum þegar þetta bréf fer héðan vestur um haf og mótaðilinn er svo sjóðurinn sem á eftir að afgreiða þetta formlega á sínum vettvangi.