136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

norrænn markaður fyrir heilbrigðisþjónustu.

[10:46]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Já, sannleikanum verður hver sárreiðastur, vil ég segja. Það er staðreynd að hæstv. ríkisstjórn talar í tvær áttir í þessum efnum. Undirliggjandi yfirlýsingunum sem koma hér um samábyrgð og velferð er markaðsvæðingin. Sú leið hefur víða verið farin og ekki reynst vel. Við getum nefnt sem dæmi Bretland og Svíþjóð, en fyrirmyndin að hugmyndafræðinni sem ríkisstjórn Íslands ætlar að keyra núna er frá Stokkhólmi þar sem verið er að reyna nákvæmlega það sem hæstv. forsætisráðherra ætlar að keyra hér inn í krafti meiri hluta á Alþingi og undir því yfirskini að greitt sé úr sameiginlegum sjóðum. Það á að markaðsvæða en greiða úr sameiginlegum sjóðum.

Það stendur skýrum stöfum í formennskuáætluninni að mikilvægt sé að skoða hvernig þróa megi norræna velferðarlíkanið þannig að það styrki samkeppnishæfni. Við vitum öll hvað þetta þýðir, þjóðin veit það og Norðurlandaþjóðirnar vita það (Forseti hringir.) og Norðurlandaþjóðirnar og ríkisstjórnirnar hafa ekki lýst sig samþykkar því að heilbrigðiskerfið á Norðurlöndunum verði markaðsvætt.