136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

norrænn markaður fyrir heilbrigðisþjónustu.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Já, það er athyglisvert, herra forseti, að nú eru þingmenn Vinstri grænna líka á móti því að styrkja samkeppnishæfni. Gera menn sér ekki grein fyrir hvað í hugtakinu felst? Við Íslendingar stöndum frammi fyrir miklum erfiðleikum og gætum misst fólk úr landi. Þá er auðvitað ekkert mikilvægara en að styrkja samkeppnishæfni landsins á öllum sviðum, veita sem besta þjónustu og liður í því, þegar kemur að opinberri velferðarþjónustu, er að fara vel með peninga, fá meira fyrir sama fé eða veita sömu þjónustu fyrir minni pening. (Gripið fram í.) Þetta snýst allt um það, hv. þingmaður. Þetta snýst ekki um illmennsku einhverra þingmanna eða ráðherra eða, eins og alltaf er verið að gefa í skyn, að til standi að níðast á gömlu fólki, sjúklingum eða öðrum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er sí og æ að gefa slíkt í skyn en það hefur aldrei verið sagt af okkar hálfu, hvorki hér í þingsal né í Valhöll. (Gripið fram í.)