136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

staða Seðlabankans.

[10:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku bárust fréttir af því að Seðlabanki Íslands hafi orðið fyrir verulegu tjóni í veðlánaviðskiptum sínum við viðskiptabanka og sparisjóði. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra um hvaða stærðargráðu er að ræða, hvort við erum að tala um milljarða, tugi milljarða eða hundruð milljarða. Mér er ljóst að margt er enn óráðið í þessu en við á Alþingi hljótum að geta fengið einhverja nálgun á hvort hér er um tugi eða hundruð milljarða að ræða.

Þá heyrði ég hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir í ræðustóli í gær að Alþingi Íslendinga mundi koma með nýtt fjármagn inn í Seðlabankann. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða stærðargráðu hann tali um í því samhengi, hvort við þurfum að leggja tugi milljarða inn í Seðlabankann eða hvort eitthvað sem nálgast eigið fé bankans upp á 100 milljarða geti verið í hættu.

Þegar mikið tjón verður og miklir fjármunir í eigu almennings tapast er óhjákvæmilegt að spyrja um ábyrgð, hverjir axli hana og með hvaða hætti. Í endurskipulagningu á viðskiptabönkunum hefur verið gengið fram með þeim hætti að bankastjórarnir sem þeim hafa stýrt hafa þurft að láta af störfum og nýir bankastjórar verið ráðnir til að hefja uppbyggingarstarfið. Ég spyr hvort sömu leikreglur muni gilda fyrir Seðlabankann og viðskiptabankana. Ég spyr kannski ekki síst vegna þess að nú liggur fyrir að á Alþingi, sem á að veita fjármuni inn í Seðlabankann, hafa, að ég held, flestir stjórnmálaflokkar lýst því yfir að þeir telji mikilvægt að endurskipuleggja yfirstjórn Seðlabankans með fagleg markmið að leiðarljósi. Ég held að ef svona tjón hefur orðið hljótum við að geta verið sammála um það, ég og hæstv. forsætisráðherra, að yfirstjórn bankans hljóti að koma til umræðu þegar slíkar fjárveitingar verða ræddar.