136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

staða Seðlabankans.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Seðlabankinn er ekki að fara í þrot með sama hætti og viðskiptabankarnir. Fyrr á þessu ári voru gerðar mjög ríkar kröfur til Seðlabankans um að hann veitti bönkum fyrirgreiðslu um lausafé í enn ríkara mæli en áður hafði verið og það var gert. Tekið var við veðbréfum frá bönkunum, bréfum sem bankarnir höfðu gefið út og skipt eða víxlað á milli sín þannig að einn banki lagði til tryggingarbréf frá öðrum banka fyrir lausafjárfyrirgreiðslu í endurhverfum viðskiptum í Seðlabankanum. Þetta var af flestum talið eðlilegt og nauðsynlegt.

Þegar bankarnir fóru í þrot kom á daginn að mun minni verðmæti voru falin í veðbréfunum en menn höfðu áður gert sér vonir um. Þá blasir óumflýjanlega við sú staðreynd að Seðlabankinn verður fyrir miklu tapi, hversu miklu nákvæmlega hefur ekki verið reiknað nákvæmlega út en það skiptir tugum milljarða ef ekki á annað hundrað milljarða, kannski er það um 150 milljarðar, eitthvað svoleiðis, það á eftir að komast að niðurstöðu um það.

Eigið fé Seðlabankans er um 90 milljarðar. Þess vegna er ljóst að ríkið verður að leggja bankanum til nýtt eigið fé. Alþingi verður að koma þar við sögu, hversu mikið nákvæmlega er ekki búið að reikna út eða ákveða, en hins vegar er mikilvægt að menn átti sig á að slíkt er gert með því að ríkið gefur út skuldabréf og leggur það inn í bankann. Í raun og veru er það millifærsla í bókhaldi ríkisins, skuld myndast hjá ríkissjóði og eign hjá bankanum, sem er í eigu ríkisins, á móti. Því er ekki um bein fjárútlát að ræða nema í mjög litlum mæli og ekki aðgerð sem ætti að hafa áhrif á önnur fjármál ríkisins.