136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

nýsköpun og sprotafyrirtæki.

[11:02]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Svarið við þeim þremur spurningum sem hv. þingmaður varpar til mín er játandi. Ég hef haft tök á því að skoða þetta mál og ég og starfsmenn mínir höfum haft tök á því að eiga fundi með fólki sem hefur komið fram brimandi með hugmyndir á þessu sviði. Ég vek eftirtekt á því að jafnólíkir einstaklingar og hæstv. forsætisráðherra og söngkonan Björk hafa einmitt kallað eftir því að þjóðin öll komi fram með hugmyndir á þessu sviði nú þegar þessir atburðir hrynja yfir okkur. Það hefur gerst.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um það hvort verið væri að vinna að því að ná samkomulagi við Atvinnuleysistryggingasjóð til að tryggja að hámenntað, vel þjálfað fólk sem nú skyndilega þarf viðfang fyrir hendur sínar og huga geti notið aðstoðar sjóðsins til þess að starfa t.d. hjá sprotafyrirtækjum eða til að stofna sín eigin nýsköpunarfyrirtæki. Svarið er já. Sú vinna er í gangi. Ég hef reyndar haft þær hugmyndir án þess að þær sé leiddar til lykta að bæði Atvinnuleysistryggingasjóður og Samtök iðnaðarins, sem hafa látið sig þessi málefni mikið varða, komi að því.

Það hafa komið fram hugmyndir, t.d. úr hópi kvikmyndagerðarmanna, um að nýta tiltekið húsnæði sem nú er komið í eigu ríkisins til að setja upp kvikmyndaver og er frábærlega hæft til að gera stúdíó. Sú hugmynd er í vinnslu. Það hafa komið fram hugmyndir frá starfsmönnum í fjármálageiranum um að setja upp frumkvöðlastöð. Það er búið að hrinda því í framkvæmd. Hún er tekin til starfa í húsinu sem er stundum kennt við apótekið, skammt frá Alþingishúsinu. Það hafa komið fram margar aðrar hugmyndir sem eru í vinnslu en þar að auki bendi ég hv. þingmanni á það að áður en þessi erfiða atburðarás hófst var búið að leggja drög að margvíslegum aðgerðum til að ýta undir nýsköpun og sprota.