136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

nýsköpun og sprotafyrirtæki.

[11:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að hugmyndabanki hæstv. forsætisráðherra verður burðarstoð í nýju bankakerfi Íslendinga. Ég vil líka nefna það að einmitt út úr þeim hugmyndum sem hafa streymt til okkar stjórnvalda frá hópum sem sjá fram á að þeir þurfa að framfleyta sér með öðrum hætti en áður og finna sér nýja iðju fyrir hendur sínar, þá hefur iðnaðarráðuneytið verið að þróa markáætlanir í tengslum við Tækniþróunarsjóð, t.d. á sviði vistvænna orkugjafa, ákveðinnar tegundar jarðhitanýtingar og sömuleiðis ferðaþjónustu. Allt eru þetta hugmyndir sem verða kynntar á næstunni og beinlínis má segja að séu sprottnar út úr þessu. Iðnaðarráðuneytið og vinna þar innan veggja hefur sömuleiðis leitt til þess að núna er komin frumkvöðlabraut á háskólastigi við einn háskólann hér. Sömuleiðis bendi ég á það að frumtakssjóðurinn mikli, Fjárfestingarsjóðurinn, mun senn taka til starfa, Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur, það er verið að brúa nýsköpunargjána, það er því ákaflega margt í gangi. Ekki er það allt frá þeim sem hér stendur, það er alveg rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði. Hún lagði grundvöll að mörgu því sem núna kemur sér ákaflega vel og fyrir það er ég henni þakklátur eins og flest annað sem hún gerir gott. Það mætti auðvitað vera meira.