136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:16]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum hér um frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur lagt fram um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Það er mjög gott að hæstv. ráðherra skuli koma með þetta frumvarp sem á að tryggja að þessi nýja atvinnugrein, frístundaveiðar, þar sem eigendur báta bjóða upp á að leigja þá út og erlendir menn fara á þeim og veiða fisk — auðvitað þurfa að vera ákveðnar reglur um það hverjir fá að róa á þessum bátum og skiptir þá engu máli hverrar þjóðar þeir eru. Það liggur í augum uppi að þeir sem fara á fiskibátum út frá ströndum lands okkar þurfa að kunna á bátana, hafa kynnt sér aðstæður og vita eitt og annað í sambandi við björgunarbúnað, talstöðvar og staðsetningartæki. Allt þetta er — að því er ég les út úr þessu frumvarpi — nánast sambærilegt við pungaprófið sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson segir að margar konur hafi. Ég skildi nú ekki alveg hvað það kom umræðunni við en það er önnur saga.

Ég vil taka undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem talar jákvæðum orðum um þessa atvinnugrein sem hefur vaxið mjög t.d. á Vestfjörðum. Ég hugsa að þegar komnar eru skýrar og góðar reglur í kringum bátana og annað eigi þessi grein eftir að vaxa. Menn muni sjá tækifæri í henni t.d. hér á þessu svæði, höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóanum, því að margar hafnir eru við Reykjanes og hér í flóanum, uppi á Skaga og Arnarstapa. Einu sinni var ágæt höfn á Hellnum en hún er svo sem ekkert góð í dag.

Þetta er því mjög gott mál og vonandi verður þetta til þess að styrkja og efla þessa atvinnugrein sem fer vaxandi. Nú þegar veit ég að nokkur hundruð, ef ekki þúsundir, manna horfa til þess að njóta þeirrar ánægju og gleði sem fylgir því að fara aðeins út fyrir bryggjuna og veiða fisk í soðið, vera í tengslum við náttúruna og lífið. Það mætti vera meira um það. Ég gæti hafið hér langa ræðu um smábátaútgerð en geri það ekki.