136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

101. mál
[11:31]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki nógu ánægður með þessi svör vegna þess að það vantar að skilgreina þetta betur. Yfirmaður samgöngumála í landinu, hæstv. samgönguráðherra, á að geta sagt okkur hver er munurinn á skemmtibátaskírteini, frístundabátaskírteini og svokölluðu pungaprófi eða 30 tonna réttindum heitir það nú. (Gripið fram í: Þú hlýtur að vita það sem skipstjóri.) Ég veit það en ég veit að þú veist það ekki og hefðir gott af því að fá upplýsingar um það hver er munurinn á þessu (Forseti hringir.) af því að við erum að fjalla um öryggismál.

(Forseti (ÁRJ): Ekki ávarpa þingmenn beint úr ræðustól.)

Frú forseti. Ég harma að mér skuli hafa orðið á og að ég skyldi þúa manninn beint en ég biðst velvirðingar á því og afsökunar að hafa gert það. En vegna frammíkalls ágæts þingmanns væri mjög þarft fyrir hann og aðra hér að vita hver munurinn er á þessum hlutum. Í siglingalögum er nefnilega ákvæði um það að skipstjórnarmenn á fiskiskipum á Íslandsmiðum eiga t.d. að kunna íslensku. Mörg vandamál síðsumars hjá Landhelgisgæslunni voru út af því að þýskir ferðamenn sem voru skipstjórnarmenn á þessum frístundabátum voru ekki með réttindi og kunnu ekki íslensku. Í eitt skipti veit ég til að varðskipsmenn fóru um borð í nokkra þessara báta og þar var enginn sem kunni íslensku og enginn var með réttindi. Ég held að það hafi verið tíu bátar þar sem enginn reyndist hafa skírteini eða tala íslensku.