136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.

20. mál
[11:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér stuttlega í umræðuna um þingsályktunartillögu Valgerðar Sverrisdóttur og fleiri þingmanna Framsóknarflokksins um rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál. Ég tel að hér sé hreyft mjög þýðingarmiklu máli sem varðar mikla hagsmuni Íslendinga í þessum málaflokki. Ég rifja það upp sem hv. flutningsmaður kom einnig inn á í máli sínu að stofnun af því tagi sem hér er lagt til að sett verði á fót gæti verið stuðningur við þann samráðsvettvang stjórnmálanna sem lofað var strax þegar herinn fór haustið 2006 en var jafnframt sérstaklega fjallað um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Því miður hefur ekki orðið af þeim samráðsvettvangi enn þá eins og lagt var upp með og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum talað fyrir að settur yrði á laggirnar. Ef þetta þingmál verður til þess að þoka því máli eitthvað áleiðis er það að mínu mati mjög jákvætt. Við höfum talað fyrir því að slíkur vettvangur yrði settur á laggirnar sem gæti haft hlutverk áþekkt því sem öryggismálanefndin hafði á sínum tíma eða eitthvað í þá veru. Sú nefnd fjallaði um öryggismál á breiðum grundvelli og stóð fyrir rannsóknum, athugunum, skýrslugerð o.s.frv. um öryggismál. Ég tel því eðlilegt að við ræðum þessi mál.

Við eigum mjög mikilla hagsmuna að gæta hér á norðurslóðum. Það kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni að heilmiklar breytingar verða nú í þeim málum með bráðnun íss á heimskautasvæðum, vaxandi umferð skipa um norðurslóðir og landslagið hefur í alþjóðamálum breyst. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stórauka samvinnu við Norðmenn á þessum vettvangi eins og reyndar á fleiri málasviðum sem hafa verið talsvert til umræðu hér í samfélaginu að undanförnu. Nægir þar að nefna efnahagsmálin og peningamálastefnu. Ég tel að við eigum að auka þar samstarf okkar við Norðmenn og eins á sviði utanríkis- og öryggismála. Við eigum mikla samleið með þeim hvað varðar ýmsa hagsmuni á þessum slóðum, t.d. varðandi öryggishagsmuni og auðlindahagsmuni. Ég tel því að við ættum að sækjast eftir samstarfi við þá hvað þá varðar.

Auðvitað má líka velta því fyrir sér, eins og hv. flutningsmaður reyndar kom inn á í lok ræðu sinnar, hvort þetta sé rétti tíminn til þess að leggja til nýjar stofnanir með auknum útgjöldum sem þeim fylgja. Það er auðvitað sjónarmið í sjálfu sér. Það er rétt hjá þingmanninum að það er kannski ekki það sem manni dettur helst í hug nú við þessar aðstæður. En það má líka spyrja sig að því hvort það gæti komið í staðinn fyrir eitthvað annað og ég nefni Varnamálastofnun í því samhengi. Frá mínum bæjardyrum séð væri nær að setja það fjármagn sem nú fer í Varnamálastofnun í verkefni eins og þetta.

Ég tek einnig undir að stofnanir eins og Alþjóðastofnun Háskóla Íslands gætu verið samstarfsvettvangur við rannsóknarstofnun um öryggis- og utanríkismál. Ég legg líka á það áherslu að stofnun af þessu tagi þarf að vera sjálfstæð. Hún þarf að búa við faglegt og stjórnunarlegt sjálfstæði eins og flutningsmenn gera ráð fyrir í greinargerðinni með tillögunni. Ég ítreka að hún getur líka verið vettvangur fyrir samstarf stjórnmálaflokka í öryggis- og utanríkismálum. Þeir gætu hugsanlega átt einhverja aðkomu að stofnun af þessum toga þannig að frá okkar bæjardyrum séð tel ég óhætt að fullyrða að við skoðum þessa tillögu mjög gaumgæfilega og erum alls ekki með einhverja fyrirframgefna afstöðu hvað málið varðar. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum einnig haft hugmyndir um að setja á laggirnar smáríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og er það liður í sjónarmiðum okkar í utanríkis- og öryggismálum sem eru þekkt.

Við munum skoða tillöguna með opnum huga og sjáum marga kosti við hana. Hún gæti leyst aðra starfsemi af hólmi sem við höfum síður áhuga á að lagðir séu miklir fjármunir í eins og komið hefur fram í umræðum á Alþingi.