136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[12:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Það er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur fyrir þingið, ekki í annað eða þriðja skipti heldur í fjórða sinn sem hv. flutningsmenn reyna að berja þetta í gegn og velja til þess að mínu mati afar góðan tíma.

Í greinargerð með þessari tillögu til þingsályktunar segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur með framlagningu þessarar þingsályktunartillögu er að fá yfirsýn yfir þá starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga sem er í beinni samkeppni við einkaaðila. Með slíkar upplýsingar í höndunum er markvisst hægt að stefna að því að ríkið dragi sig út úr starfsemi sem er á samkeppnismarkaði og um leið að vekja ríkisstofnanir til vitundar um skaðsemi þess að hamla þróun framsækinnar starfsemi á vegum einkaaðila.“

— Um skaðsemi þess að hamla þróun starfsemi á vegum einkaaðila.

Í upphafi greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Á síðustu tveimur áratugum hefur ríkið markvisst dregið sig út úr samkeppnisrekstri. Fjölmörg fyrirtæki á vegum ríkisins hafa verið einkavædd og má þar m.a. nefna bankastarfsemi og fjarskiptaþjónustu.“

— Má þar nefna bankastarfsemi og fjarskiptaþjónustu, segir hér í þessari greinargerð með þingsályktunartillögunni, virðulegi forseti.

Ég spyr: Fær fólk aldrei nóg? Mér finnst það í raun og veru talsverð bíræfni að koma með þingsályktunartillögu af þessu tagi þar sem hreinlega er hvatt til þess að ganga áfram þann sama veg og við stöndum nú í rjúkandi rústunum af, að fylgja áfram þeirri hugmyndafræði sem leitt hefur samfélagið, íslensku þjóðina, í þá stöðu sem er í dag. Að hvetja til áframhaldandi markaðsvæðingar og einkavæðingar á öllum sviðum, reyna að grafa upp úr öllum skúmaskotum samfélagsins (Forseti hringir.) eitthvað sem má með einhverjum hætti færa markaðnum í hendur.