136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[13:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga sem tíu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sameinast um. Þetta mun vera í fjórða skipti sem þessi þingsályktunartillaga er lögð fram en hún gengur í grófum dráttum út á það að reyna að færa verkefni sem er sinnt hjá hinu opinbera út á samkeppnismarkað.

Hv. þm. Ásta Möller sagði um þá gagnrýni sem fram hefur komið á þingsályktunartillöguna frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að ekki væri heil brú í málflutningi okkar. Ég er ekki sammála því.

Ég vil segja við hv. þm. Ástu Möller að mér finnst vera heil brú í málflutningi hennar og samherja hennar, fullkomlega heil brú. Mér fannst m.a.s. ákveðin samfella í málflutningi hv. þingmanns, sem er einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Ástu Möller á þingsályktunartillögunni, Sigurðar Kára Kristjánssonar, í gær og röksemdafærslum sem er að finna í greinargerð með þingmálinu.

Hann sagði að við þær aðstæður sem við byggjum við nú væri mjög mikilvægt að færa verkefni frá ríki og sveitarfélögum út á markað. Hann orðaði þetta ekki alveg svona kurteislega, heldur talaði um fitu, að skera fitu af ríki og sveitarfélögum og hafði á orði að sveitarfélögin hefðu sérstaklega farið offari í launagreiðslum til starfsmanna sinna og opinber rekstur hefði blásið út og nú þyrfti að snúa af þeirri braut. Þessu er ég algjörlega ósammála. Ég tel að á krepputímunum sem við lifum nú og erum því miður að fara inn í sé mikilvægt að styrkja innviði samfélagsins og starfsemi sem fram fer á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Það er ekki bara í þessu sem hina heilu brú í málflutningi hv. þm. Ástu Möller og félaga er að finna. Hin heila brú kemur fram í ályktunum og greinargerðum frá Verslunarráði Íslands og síðan frá Viðskiptaráðinu svo lengi sem ég man eftir. Þetta þingmál er nefnilega fyrst og fremst tillögugerð og rökstuðningur sem Verslunarráðið hefur haldið fram undangengin ár og áratugi, þ.e. að einkavæða og markaðsvæða samfélagsþjónustuna, reyna að finna þá þætti þjónustunnar sem hægt er að hafa hagnað af, skilja hitt eftir hjá ríki og sveitarfélögum en fara með arðvænlegu bitana út á markaðinn. Þetta þingmál er mjög hlaðið að þessu leyti því að viðskiptaráðherra er beinlínis falið samkvæmt tillögunni, að koma með tillögur um hvernig unnt sé á markvissan og skilvirkan hátt að draga úr núverandi samkeppnisrekstri opinberra aðila.

Með öðrum orðum er orðið bannorð að opinberir aðilar sinni verkefnum sem hægt er að framkvæma á markaði. Er þetta mjög skynsamlegt? Ég held ekki. Ef við horfum til opinberrar þjónustu, það er t.d. vísað í sjúkrahúsin, Vinnueftirlitið, Siglingamálastofnun og aðskiljanlega aðila, og skerum alltaf burtu vaxtarsprotana, spennandi verkefni og nýjungar, og gerum það að bannorði að framkvæma slíkt innan opinberra veggja veikjum við þessa þjónustu. Ég segi ekki þar með að ekki séu til verkefni hjá hinu opinbera sem megi ekki fara út á samkeppnismarkað, ég gef mér ekkert í þeim efnum. En þegar þetta er sett fram sem pólitísk stefna hef ég mjög miklar efasemdir um það.

Ég hef oft velt fyrir mér hvernig standi á því að menn hafi ekki meiri metnað fyrir hönd einkageirans en raun ber vitni. Á síðustu árum hefur hann í allt of ríkum mæli einblínt á það sem þegar er til og vill komast yfir þau verkefni sem þegar eru til, t.d. innan velferðarþjónustunnar. Þetta þekkjum við í heilbrigðiskerfinu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa nú sameinast um þá stefnu að láta skattborgara greiða fyrir alla þjónustu en vilja síðan fá arðvænlega bita til sín til þess að hagnast á. Það er þarna sem hin pólitíska brú liggur, sérstaklega í stefnu Sjálfstæðisflokksins en einnig hluta Samfylkingarinnar, að fara með heilbrigðisþjónustuna út á markaðinn.

Mjög misvísandi yfirlýsingar hafa komið fram á undanförnum vikum, annars vegar frá aðilum eins og hv. 1. flutningsmanni þessa þingmáls, Ástu Möller, sem segist vilja að heilbrigðisþjónustan sé greidd úr opinberum sjóðum, fjármögnuð af opinberu fé, og hins vegar manna á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur talað fyrir markaðsvæðingu, að læknar og fyrirtæki auglýsi verkefni sín og keppi á grundvelli verðlags. Hann hefur lýst þeim vilja sínum yfir — og þetta er maður sem hefur verið falin formennska í nefnd sem fjallar um kostnað í heilbrigðiskerfinu — að ríkið greiði einvörðungu upp að tilteknu hámarki en þar fyrir ofan eigi sér stað samkeppni á markaði. Þannig að misvísandi raddir og mismunandi sjónarmið koma innan úr Sjálfstæðisflokknum hvað þetta snertir.

Við höfum sett fram þingmál, gerðum það að fyrsta þingmáli okkar í vetur sem leið, að leggja til ítarlega rannsókn á kostum og göllum einkavæðingar innan almannaþjónustu. Það er alveg rétt að við höfum ákveðna meginhugsun þar að leiðarljósi, við teljum mjög mikilvægt að grunnþjónustan sé ekki háð duttlungum markaðarins og höfum bent á dæmi þess að það sé kostnaðarsamara og komi í koll þeim sem njóta þjónustunnar þegar á heildina er litið. Einkavædd þjónusta er dýrari en samfélagslega rekin þjónusta auk þess sem við viljum ekki innleiða markaðshugsun í þessi kerfi.

Síðan er sagt, eins og hv. þingmaður gerði hér áðan, að við séum mótsagnakennd að því leyti í málflutningi okkar að við horfum fram hjá því að hluti heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi sé rekinn af einkaaðilum. Það er engin mótsögn í þessu og við höfum margoft sagt að við drögum markalínuna á milli fyrirtækja og starfsemi sem er rekin með hagnaðarvon að leiðarljósi og sjálfseignarstofnana sem sprottnar eru upp úr almannasamtökum eins og SÍBS eða Hrafnista úr verkalýðshreyfingunni. Þar er markalínan sem við drögum á milli.

Ég velti fyrir mér þegar ég heyrði málflutning hv. þingmanns áðan um mikilvægi þess að koma Íslandspósti og heilbrigðiskerfinu í ríkari mæli út á markað og þar er vitnað til hversu ágætlega hafi til tekist í markaðsvæðingu undangenginna ára og bent á fjarskiptaþjónustu (Forseti hringir.) og bankastarfsemi, þá spyr ég nú, hæstv. forseti, hvort við höfum ekki fengið nóg. Erum við ekki búin að fá nóg?