136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[13:46]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil að við séum ósammála um ýmsa hluti, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, af því að við horfum á hlutina með mismunandi hætti en fyrsta skilyrðið fyrir því að við skiljum sjónarmið hvors annars er að það liggi ljóst fyrir hvar brýtur á. Það er það sem ég kalla eftir. Ég kalla eftir því hvar þessi lína liggur.

Hv. þingmaður svaraði því til áðan að það séu útboðin, ágreiningurinn er ekki um rekstraraðilann, honum er sama um rekstraraðilann en það er aðferðafræðin, það eru útboðin. Hvernig getur þá hv. þingmaður sagt að á sama tíma og útboð fer fram sé ekki verið að gæta hagsmuna starfsmanna? Hvernig getur hann jafnframt sagt að þetta sé dýrari kostur? Það er mótsögn í þessu. Ef útboð fer fram er verið að reyna að ná besta fjárhagslega kosti fyrir ríkið en á sama tíma segir hv. þingmaður að þetta sé dýrara fyrir ríkið. Það er þetta sem ég skil ekki í málflutningi hv. þingmanns.

Hvað læknaritarana varðar þá var það þannig að útboðið fyrir læknaritun varðaði ekki það starf sem læknaritararnir voru í á þeim tíma sem það var gert. Málið snerist um að það átti eftir færa mörg þúsund sjúkraskrár og það var óskað eftir því að fá samstarfsaðila til að rita þessar sjúkraskrár til að þær lægju fyrir vegna hagsmuna sjúklinga.

Varðandi tuð hv. þingmanns um hagsmuni mína í einhverja veru þá verður hann að skýra það nánar. Þeir hagsmunir sem ég er að gæta eru hagsmunir þjónustunnar, sjúklinganna fyrst og fremst. Þar liggur mín hagsmunagæsla fyrst og fremst.