136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[13:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér þingmál sem er gamalkunnugt og fram fór ítarleg umræða um á síðasta þingi sem ég tók þátt í ásamt fleirum og þarf svo sem ekkert að fara mjög ítarlega í saumana á því eða þeim rökum og sjónarmiðum sem haldið hefur verið á lofti af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, það hefur verið gert áður og einnig fyrr í þessari umræðu af hv. þm. Ögmundi Jónassyni.

Nú liggur það fyrir að sjónarmið okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eru mjög ólík sjónarmiðum sjálfstæðismanna þegar kemur að þáttum eins og rekstrarformi, eignarhaldi í grunnsamfélagsþjónustu. Við lítum á heilbrigðisþjónustuna sem eina af okkar mikilvægustu samfélagsþjónustu, grunnþjónustu fyrir alla landsmenn og viljum byggja hana upp þannig. Það er að vísu rétt sem hér kom fram hjá hv. flutningsmanni að nú þegar er heilmikill einkarekstur í íslenskri heilbrigðisþjónustu en eins og við höfum litið á málið skipta stóru línurnar mestu máli í því sambandi og þar erum við ekki síst að tala um sjúkrahúsþjónustuna sem við höfum viljað standa vörð um með þeim hætti sem hún hefur verið rekin til þessa.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir varðar þó ekki eingöngu heilbrigðisþjónustuna heldur samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga á fjölmörgum sviðum. Í greinargerð með tillögunni er vikið að allmörgum þáttum, allmörgum stofnunum og starfsemi á vegum hins opinbera þar sem vísað er til þess að sú starfsemi hafi í raun og veru kannski þvælst fyrir samkeppnisrekstrinum eða einkaaðilunum.

Ég sagði í umræðu um þetta mál á síðasta þingi að mér fyndist allt yfirbragð málsins vera það að opinber rekstur stæði í vegi fyrir einkarekstrinum. Ég er ekki sammála þeirri nálgun vegna þess að mér finnst grundvallarsjónarmiðið sem þar liggur á bak við vera það að einkareksturinn eigi alltaf að eiga fyrsta rétt. Ég sé að hv. þingmaður, 1. flutningsmaður, hristir höfuðið yfir þessu og það kann vel að vera að þetta sé misskilningur hjá mér en þetta er það yfirbragð sem mér finnst tillagan og allur textinn og röksemdafærslan bera með sér. Þess vegna sagði ég líka síðast þegar þetta mál var til umfjöllunar hér að alveg eins mætti snúa þessu við og spyrja sig hvort ekki ætti að skoða samkeppnisstöðu fyrirtækja í einkaeigu gagnvart ríkinu og sveitarfélögunum, þ.e. að setja öfug formerki á þetta þingmál.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan við ræddum málið hér á síðasta þingi. Ég hygg að við stöndum á mjög mikilvægum tímamótum í íslensku samfélagi að því er varðar afstöðu til grundvallarhluta, afstöðuna til þess hvernig við viljum standa að uppbyggingu og endurreisn íslensks samfélags og á hvaða grunni við viljum að íslenskt samfélag verði byggt upp. Nú hefur það gerst að ríkið hefur tekið til sín alla stóru viðskiptabankana þrjá og fjármálakerfið allt er í vissri herkví. Talað var um það á sínum tíma að einkavæðing opinberra fyrirtækja og opinberrar starfsemi hefði gefið góða raun og menn vitnuðu þar gjarnan m.a. til fjármálastarfseminnar og bankastarfseminnar. Nú má segja að í einni svipan hljótum við að horfa á það mál með allt öðrum augum en við gerðum fyrir bankahrunið vegna þess að þær forsendur sem menn höfðu áður eru ekki lengur til staðar. Við höfum séð að hið einkavædda bankakerfi óx íslensku samfélagi stjórnlaust upp fyrir höfuð og er að valda þjóðarbúinu, öllum almenningi í landinu og atvinnulífinu gríðarlegum skaða til langrar framtíðar. Þess vegna er það skoðun mín að við þurfum að fara í grundvallarumræðu um þessar stoðir samfélagsins.

Ég hef auðvitað ekkert á móti því að samkeppnisstaðan sé skoðuð, hvort sem um er að ræða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga gagnvart einkaaðilum eða öfugt eins og ég hef talað um. Við höfum flutt um það þingmál, vinstri græn, að skoða ætti áhrif markaðsvæðingarinnar á samfélagsþjónustuna og finnst það ekkert síður merkilegt þingmál en það sem hér er talað fyrir og ef til vill ættu menn að segja að þetta ætti allt að gerast í einhverju samhengi. Ég held að í grundvallaratriðum stöndum við á slíkum tímamótum að við þurfum að taka prinsippumræðu um samfélagsþjónustuna og samfélagið okkar og hvernig við viljum byggja það upp.

Ég hef talað um að í þessu þingmáli felist ákveðið viðhorf, ég er ekki að segja kreddur en ákveðið viðhorf um að einkarekstur sé að öllu jöfnu ákjósanlegri. Ég varð t.d. stundum var við það þegar ég starfaði sem borgarfulltrúi í Reykjavík og verið var að tala um opinberan rekstur þar gagnvart einkarekstri að menn ættu alltaf einhvern veginn að leita leiða til að koma sem mestu af opinberri starfsemi í hendur einkaaðilum vegna þess að markaðurinn væri betur til þess fallinn að leysa þarfirnar, láta framboð mæta eftirspurn o.s.frv.

Það vill svo til að ég er ekki sammála þessum grundvallarsjónarmiðum. Þar með er ekki sagt að ég sé á móti því að markaðurinn sé nýttur þar sem það á við, ég tel að það geti verið ágætt en eins og oft hefur verið sagt er markaðurinn ágætur þjónn en afleitur herra. Það er auðvitað það sem gerst hefur í samfélagi okkar á undanförnum árum að markaðurinn hefur einhvern veginn tekið völdin og orðið herrann í samfélaginu og með skelfilegum afleiðingum eins og við horfðum upp á síðustu vikurnar og munum þurfa að glíma við til næstu framtíðar. Þess vegna finnst mér að menn eigi að tala varlega um það að taka opinbera þjónustu og opinberan rekstur og setja út á einkamarkaðinn. Það á m.a. við um bankastarfsemina sem núna hefur verið ríkisvædd. Ég tel að það sé mjög varhugavert að rjúka til og losa um hlut ríkisins í þessum bönkum eins og t.d. hæstv. forsætisráðherra hefur talað fyrir. Ég minni á að í Noregi og Svíþjóð þar sem menn þurftu að fara þá leið í byrjun tíunda áratugarins að ríkisvæða viðskiptabankana, það eru 15 ár síðan, er það enn þannig í báðum löndunum að ríkið á umtalsverðan hlut í bankakerfinu, í Svíþjóð 25% að ég held og í Noregi um 33%. Það er þverpólitísk samstaða þar um að svoleiðis eigi það að vera til að markaðurinn taki ekki algjörlega völdin, að það séu tæki fyrir hið opinbera til að hafa áhrif, ekki þannig að það eigi endilega að vera ráðandi aðili á þeim markaði sem bankakerfið er heldur hafa nægilega sterk ítök til að geta séð til þess að hlutirnir fari ekki úr böndum.

Fyrir utan það sem ég hef áður sagt um þetta mál, virðulegi forseti, var þar bara þetta sem ég vildi segja hér og nú að mér finnst tímasetningin til að fjalla um þetta á þessum nótum einhvern veginn röng. Mér finnst við eiga að nálgast þá aðstöðu sem við búum við á markaðnum og í samfélaginu í dag með öðrum hætti, þ.e. að taka þá grundvallarumræðu í samfélaginu öllu hvaða gildi eigi að ráða við endurreisn íslensks samfélags og þar með talið hvaða gildi eigi að ráða við uppbyggingu grundvallarsamfélagsþjónustu í samfélaginu.