136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að Íslandspóstur eigi fyrst og fremst að sinna póstþjónustu en vandinn með það ágæta fyrirtæki er að það gerir það alls ekki af neinum myndarbrag. Það er mjög undarlegt ef fyrirtækið fer út í starfsemi eins og þá sem hv. þingmaður las hér upp úr bréfi á sama tíma og það dregur úr almennri póstþjónustu sem er auðvitað grundvallar samfélagsleg þjónusta og henni á að sinna almennilega.

Getur verið að það sé vegna þess að markaðslögmálin hafa verið innleidd í stjórnun þessa fyrirtækis — sömu lögmálin um árangurstengdar greiðslur til stjórnenda og hafa verið við lýði í einkageiranum eru nú farin að sogast inn í ríkisgeirann líka — og stjórnendur fyrirtækis eins og Íslandspósts eru einhvern veginn undir þá sök seldir að breyta þjónustunni þannig að það þjóni þeirra hagsmunum best? T.d. að draga úr almennri póstþjónustu af því að hún skilar ekki miklu af sér og fara í eitthvað sem betur gefur af sér?

Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að pósturinn eigi að sinna póstþjónustunni en hann gerir það alls ekki nægilega vel. Ég get því alveg tekið undir að á ýmsum sviðum — eins og þeim sem þingmaðurinn las upp úr þessu bréfi frá kjósanda í Norðvesturkjördæmi — á ríkið ekki endilega rétt á sér. Það þýðir ekki að einkaaðilar geti alltaf komið og ýtt opinberri starfsemi til hliðar eða út af borðinu þar sem þeim dettur í hug, því allt of oft er þannig að málum staðið.