136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:21]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég tók þetta bréf frá Dagbjörtu Höskuldsdóttur í Stykkishólmi, sem hún sendi okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis í fyrravetur, upp á Alþingi þá. Við tókum þetta sem dæmi um hvernig fyrirtæki eins og Íslandspóstur ætti ekki að haga sér. Hver voru rökin? Jú, rökin voru þau að Íslandspóstur væri orðið hlutafélag á vegum ríkisins og gæti þess vegna farið sínar eigin leiðir og væri bundið lögmálum einkareksturs og auk þess væri verið að búa fyrirtækið undir sölu, það væri verið að undirbúa sölu Íslandspósts og til þess að hann gæti orðið sem söluhæfastur þyrfti hann að komast yfir þjónustu sem væri arðbær.

Þetta er sjónarmið þeirra sem vilja fyrst hlutafélagavæða og síðan búa fyrirtæki undir sölu. Ég er þessu fullkomlega andvígur. Það væri nær fyrir Íslandspóst að sinna póstþjónustu. Af hverju er Íslandspóstur að skera niður póstþjónustu um allt land, setja póstkassa á þjóðvegi langt frá bæjum til að spara, til að geta skilað auknum hagnaði en ræðst svo í starfsemi þar sem einstaklingar eru með starfsemi fyrir — bara til að búa fyrirtækið undir að verða söluhæfara? Þetta er stefnan sem ríkisstjórnin hefur sett þessum fyrirtækjum.

Ég tel einmitt að Íslandspóstur sé dæmigert fyrirtæki og dæmigert fyrir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að hlutafélagavæða þjónustuna fyrst og selja hana síðan, í staðinn fyrir að Íslandspóstur eigi fyrst og fremst að sinna (Forseti hringir.) þeirri kjarnastarfsemi sem póstþjónusta er, hvort sem það skilar halla eða gróða. Auðvitað á það að vera gert á eins hagkvæman hátt og hægt er (Forseti hringir.) en þjónustan á að vera í fyrirrúmi.