136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

almenningssamgöngur.

44. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um almenningssamgöngur sem ég flyt ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni, Álfheiði Ingadóttur og Þuríði Backman.

Hér er um að ræða frumvarp um heildarlöggjöf á sviði almenningssamgangna. Frumvarpið markar þar af leiðandi viss tímamót vegna þess að til þessa hefur ekki verið til staðar heildarlöggjöf á sviði almenningssamgangna þar sem skilgreind er ábyrgð og markmið með almenningssamgöngum eða fjármögnun þeirra tryggð.

Í 1. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að öflugum, öruggum og hagkvæmum almenningssamgöngum í lofti, á láði og legi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Enn fremur að auka hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum almennt, bæta skipulagningu þeirra og tryggja fjármögnun. Við skipulag almenningssamgangna skal hafa hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og markmiðum stjórnvalda og alþjóðaskuldbindingum í umhverfismálum, m.a. í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“

Í þessari 1. gr. er reynt að hnýta saman þau mikilvægu meginmarkmið sem eiga að mati flutningsmanna að liggja að baki skipulagi og rekstri almenningssamgangna, þ.e. að tryggt sé að bæði á landi, í lofti og á legi séu skipulagðar markvissar almenningssamgöngur. Þær eiga að vera öflugar og öruggar og þær eiga að vera hagkvæmar og markmiðið eða leiðarljósið á að vera sjálfbær þróun. Enn fremur er það eitt af mikilvægustu markmiðunum, samkvæmt þessu frumvarpi, að auka hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum almennt. Það er mikilvægt markmið í sjálfu sér. Mörg sveitarfélög hafa sett sér tölusett markmið varðandi almenningssamgöngur vegna þess að á undanförnum árum hefur orðið æ meiri umræða í sveitarfélögum um mikilvægi almenningssamgangna og þess vegna hafa þau sett sér markmið í því sambandi. Að mati flutningsmanna frumvarpsins á það að vera mikilvægt markmið hins opinbera, löggjafans, að hlutdeild almenningssamgangna verði aukin. Meginröksemdin fyrir því er auðvitað þjóðhagsleg hagkvæmni. Þar getum við talað um þann efnahagslega sparnað sem það getur haft í för með sér fyrir samfélagið allt að almenningssamgöngur séu efldar og hlutur þeirra verði aukinn. Það getur leitt til minni kostnaðar við margs konar innviði og stofnframkvæmdir í vegamálum, gatnamálum. Það er auðvitað sérstaklega mikilvægt á þeim tímum sem nú eru, m.a. að því er varðar orkumálin, orkugjafana, að við getum dregið úr notkun innflutts jarðefnaeldsneytis sem knýr bílaflota landsmanna að mestu. Það er auðvitað líka mikilvægt þegar við horfum á viðskiptajöfnuðinn við útlönd að við getum aukið hlut almenningssamgangna og þar með dregið úr þeirri miklu fjárfestingu sem liggur í hinum almenna bílaflota.

Hér er líka talað um þjóðhagslega hagkvæmni sem markmið við skipulag almenningssamgangna en það hafa verið gerðar rannsóknir á því, m.a. eftir því sem ég best veit, af hálfu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagslega hagkvæmni almenningssamgangna þar sem kemur fram að hún er gríðarlega mikil. Hér er líka vísað til markmiða stjórnvalda og alþjóðaskuldbindinga í umhverfismálum, m.a. í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar höfum við tekist á herðar ákveðnar skuldbindingar sem við eigum að sjálfsögðu að reyna að uppfylla enda er tilgangurinn með því að gangast undir slíkar skuldbindingar að sjálfsögðu sá að þær séu uppfylltar. Aukin hlutdeild almenningssamgangna er tvímælalaust þáttur í því, ég held að enginn ágreiningur sé um að með því móti getum við dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í frumvarpinu er kveðið á um það að samgönguráðherra fari með yfirstjórn þessa málaflokks. Við gerum tillögu um það í 3. gr. frumvarpsins að landinu öllu verði skipt í ákveðin þjónustusvæði almenningssamgangna og það eigi að gerast í samgönguáætlun. Þar eigi að koma fram hvernig landinu er skipt í þjónustusvæði og þá verði skilgreind þjónustuþörf og markmið fyrir hvert svæði. Sú skilgreining þarf að sjálfsögðu að taka mið af þeim meginmarkmiðum sem lögð eru til í 1. gr. og að sjálfsögðu þarf að taka mið af hagsmunum hvers svæðis fyrir sig enda geta þau verið æðimismunandi.

Í 4. gr. er gerð tillaga um að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, beri ábyrgð á að almenningssamgönguþjónusta sé veitt samkvæmt lögum þessum og í samræmi við ákvæði samgönguáætlana. Það er ekki tekin afstaða til þess með hvaða hætti sú þjónusta er veitt en ábyrgðin á því að hún sé til staðar er á herðum opinberra aðila, ríkinu, að því er varðar almenningssamgöngur með flugvélum og ferjum sem nú þegar á sér stað í takmörkuðum mæli. Hér gætu strandsiglingar fallið undir ef ákveðið verður að taka þær upp í einhverjum mæli á nýjan leik og þar er vísað til laga um loftferðir og til vegalaga. Síðan á ríkið einnig að bera ábyrgð á fyrirkomulagi almenningssamgangna með bifreiðum samkvæmt sérleyfum. Ríkið hefur það reyndar með höndum í dag og veitir sérleyfi til aksturs og fólksflutninga og farmflutninga á tilteknum sérleyfisleiðum.

Í öðru lagi er lagt til að sveitarfélög beri ábyrgð á fyrirkomulagi almenningssamgangna innan sveitarfélags, með bifreiðum innan sveitarfélags. Þá erum við að tala um hina hefðbundnu strætisvagnaþjónustu og svo að á milli sveitarfélaga sé um að ræða einkaleyfi til handa sveitarfélögunum á grundvelli laga um fólksflutninga og farmflutninga.

Hér er síðan gerð tillaga um að í sveitarfélögum með meira en 10 þúsund íbúa sé skylt að skipuleggja almenningssamgöngur. Ég held raunar að flest sveitarfélög sem ná 10 þúsund íbúa markinu, sem eru reyndar ekki mörg hér á landi, skipuleggi nú þegar almenningssamgöngur. Sveitarfélögin sinna því þessu verkefni þó það sé ekki lögbundið en þá kemur það líka að þau hafa ekki sérstaka tekjustofna til þess aðra en þá að greiða þann kostnað annars vegar með notendagjöldum og hins vegar af almennu útsvars- eða skatttekjum sveitarfélaganna.

Í 5. gr. er síðan fjallað um fjárframlög og m.a. um að framlög ríkisins til almenningssamgangna á vegum sveitarfélaga skuli taka til stofnkostnaðar stofnframkvæmda og innviða svo sem vegna forgangsakreina, umferðarstýringar og búnaðarniðurgreiðslu opinberra gjalda eða beinna rekstrarstyrkja. Það er sem sagt veitt heimild samkvæmt frumvarpinu til þess að ríkið veiti framlög til almenningssamgangna á vegum sveitarfélaga í gegnum samgönguáætlun. Það eru einhverjar fjárhæðir til almenningssamgangna og samgönguáætlunar nú þegar. Þær eru ekki háar en með markvissri stefnumótun á sviði almenningssamgangna og með skilgreiningu á þjónustuþörf einstakra þjónustusvæða mundu framlög ríkisins til þessa málaflokks vera ákveðin í samhengi við önnur framlög í samgönguáætluninni.

Ég lít svo á, virðulegur forseti, að hér sé að mörgu leyti um tímamótafrumvarp að ræða. Það er kunnara en frá þurfi að segja að samgöngur af ýmsum toga eru hverju samfélagi mikilvægar og það er mikilvægt að það sé boðið upp á fjölbreyttan samgöngumáta og samgöngumátarnir búi við visst jafnræði sín í milli. Um leið þarf að tryggja að unnt sé að draga úr neikvæðum áhrifum samgangna með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi og búa þannig um hnúta að við áætlanagerð í samgöngumálum sé umhverfisrask og mengun af völdum samgangna lágmörkuð.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum um langt skeið lagt ríka áherslu á almenningssamgöngur bæði á landsvísu, á vettvangi Alþingis, og eins á sveitarstjórnarvettvangi þar sem við höfum tekið þátt. Undanfarið þing hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt til að ríkið komi til móts við rekstur almenningssamgangna með frekari lækkun, niðurfellingu á virðisaukaskatti og olíugjaldi og þetta frumvarp er í raun framhald af málatilbúnaði flokksins í málefnum almenningssamgangna. Í markmiðsgrein frumvarpsins sem ég hef þegar lesið er farið yfir mikilvæga þætti, t.d. umhverfismálin, þjóðhagslega hagkvæmni og mikilvægi þess að ríkið móti sér stefnu í málefnum almenningssamgangna. Þar er m.a. vísað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem látið er að því liggja að efla eigi almenningssamgöngur. Við höfum gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar, m.a. þar sem tekið er fram að ríkið eigi að efla almenningssamgöngur til að ná markmiðum alþjóðasáttmála á sviði umhverfismála. Það er einnig kunnara en frá þurfi að segja að almenningssamgöngur í þéttbýli hafa mikið og raunar alfarið verið á hendi sveitarfélaganna en þau hafa ekki fengið tekjustofna til að sinna þessum mikilvæga málaflokki.

Sveitarfélögin sjálf hafa í vaxandi mæli fjallað um mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur. Það kom m.a. fram þegar samgöngunefnd Alþingis heimsótti sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í haust en þá var það einn fyrsti punkturinn sem við samgöngunefndarmenn fengum frá sveitarstjórnarfólki, talsmönnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, fyrsta atriðið sem þau nefndu gagnvart samgönguyfirvöldum var að efla almenningssamgöngur. Ég held að það sé því orðið brýnna en nokkru sinni fyrr að þessum málaflokki verði gefinn meiri gaumur og um hann sett heildarlöggjöf og tryggt að við setjum aukið fjármagn til málaflokksins og það sé þá gert, eins og ég sagði áðan, á grundvelli þjóðhagslegrar hagkvæmni, þjóðhagslegrar arðsemi og þjóðhagslegra arðsemisútreikninga. Ég er sannfærður um að við getum sparað þjóðarbúinu heilmikið á öðrum sviðum með því að efla almenningssamgöngur.

Í fylgiskjali með frumvarpinu fylgir kafli úr skýrslu nefndar sem samgönguráðherra skipaði á fyrri hluta árs 2007 til að fjalla um almenningssamgöngur og sú skýrsla eða sú nefnd sem þá var skipuð skilaði skýrslu til samgönguráðherra í júlí sl. Þar er að finna margvíslegar tillögur sem allar lúta að því að efla almenningssamgöngur hvers konar og þar er m.a. gerð grein fyrir aðstæðum á hinum Norðurlöndunum að því er varðar almenningssamgöngurnar og skýrt með hvaða hætti hið opinbera kemur að rekstri almenningssamgangna. Víðast hvar í löndunum í kringum okkur, bæði á Norðurlöndum og einnig annars staðar í Evrópu, er litið svo á að almenningssamgöngurnar séu einn af hornsteinunum í heildarstefnumótun hins opinbera á sviði samgöngumála þannig að til að mynda markaðir tekjustofnar til samgöngumála fara einnig til almenningssamgangna. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að leiða hugann að þessu og fara að gera slíkt í auknum mæli.

Við höfum líka séð það að til að mynda í Reykjavík hefur verið farin sú leið að reyna að treysta almenningssamgöngur með því að gera sérstakar forgangsakreinar. Víða um heim, bæði austan hafs og vestan, eru slíkar akreinar taldar sjálfsagður hlutur. Við höfum ekki gert mikið af því hér en ef á að takast að efla almenningssamgöngur og fá fleiri til að nýta sér þær þá þurfa þær að vera öruggar, þær þurfa að vera áreiðanlegar. Fólk verður að vera visst um að það komist leiðar sinnar á skjótan hátt og forgangsakreinar eru liður í því að liðka fyrir umferð almenningssamgangna í umferðarkerfi sem er vaxandi að öðru leyti og við höfum orðið vör við meiri umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu en áður. Reyndar er höfuðborgarsvæðið ekki eitt um þetta. Ég veit að Eyjafjarðarsvæðið, svo dæmi sé tekið, er líka svæði þar sem umferðarþungi hefur vaxið mikið og mengun af völdum umferðar hefur vaxið verulega og bæði í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hafa yfirvöld með reglubundnu millibili þurft að gefa út sérstakar viðvaranir um loftmengun af völdum umferðar.

Ég tel sem sagt, virðulegi forseti, að hér sé mikilvægt mál á ferðinni sem ætti að geta orðið nokkuð góð samstaða um að veita brautargengi. Ég vænti þess að málið fái góða umfjöllun á vettvangi samgöngunefndar Alþingis og vonast að sjálfsögðu til þess að fá jákvæðar umsagnir þegar málið fer í umsagnarferli á vegum nefndarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu mikið lengri. Greinargerðin með frumvarpinu fer ágætlega yfir meginmarkmiðin með frumvarpinu og rökstyður hvers vegna mikilvægt er að efla almenningssamgöngur. Þar er enn fremur að finna athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Frumvarpið er ekki mikið að vöxtum, aðeins sjö greinar, en hugsunin er að það myndi eins konar ramma utan um starfsemi almenningssamgangna, um þessa mikilvægu þjónustu og í frumvarpinu er að sjálfsögðu vísað til annarra laga, m.a. vegalaga, laganna um loftferðir og laga um fólks- og farmflutninga á landi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar til meðferðar.