136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

rannsókn á hræringum á fjármálamarkaði.

[13:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin og ég tek það þá þannig að nú snúi menn sér að þessu verki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að á næstu einum til tveimur vikum verði þessum hlutum komið í farveg. Það ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir Alþingi að setja sérstök lög um þessa rannsókn sem margt mælir með að gerð verði, að hún fari einfaldlega fram á grundvelli sérstakra lagaheimilda sem settar verði. Fyrir því eru nýleg fordæmi að standa þannig að málum fremur en beita gildandi úrræðum eins og 39. gr. stjórnarskrárinnar sem auðvitað gæti líka komið til greina.

Ég er sammála því að þarna þarf að vanda mjög val á þeim aðilum sem fengnir verða í verkið, þeim sérfróðu, óháðu aðilum og væntanlega er kostur að fá að einhverju leyti liðsinni erlendra aðila. Þar má nefna þá aðstoð sem ýmsar nágrannaþjóðir á hinum Norðurlöndunum hafa boðið fram og gæti m.a. falist í því ásamt öðru að leggja til mannafla, aðstoð eða sérfræðiþekkingu í þennan þátt endurreisnarstarfsins á Íslandi að rannsaka hlutina ofan í kjölinn þannig að hægt verði að gera þá upp (Forseti hringir.) og láta þá axla ábyrgð sem hana eiga að bera.