136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

bankaráð ríkisbankanna.

[13:43]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúinn til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um þá stöðu sem upp er komin í nýja ríkisbankakerfinu. Þar sitja í skjóli ríkisstjórnarinnar bráðabirgðabankaráð, handlangarar ráðherranna og embættismenn sem sagt er að taki nú miklar ákvarðanir í hinu nýja ríkisbankakerfi. Það er umræða um að milljarðaafskriftir útrásarmanna séu felldar niður. Fram fari brunaútsala á eignum bankanna við þessar aðstæður á síðustu vikum til manna sem áttu þær eignir fyrir, hafa tapað þeim og kaupi þær nú á nýjan leik. Það er margt sem sagt er um þessar mundir.

Ég tel mjög mikilvægt, hæstv. forsætisráðherra, að strax hefjist opinber rannsókn á þessum fullyrðingum, rannsókn á því hvort stóreignamenn hafi lokið störfum sínum í einkabankakerfinu með því að afskrifa milljarðaskuldir á sjálfa sig. Þeir afskrifuðu það ekki að ætla að bera ábyrgð á því að almenningur sem hefur tapað milljörðum í peningamarkaðsreikningum, sem færði sparifé sitt í góðri trú fyrir áróður bankamanna innan slíkra reikninga og eru núna stórtap almennings svo milljörðum skiptir.

Ég tel mjög mikilvægt, hæstv. forsætisráðherra, að hin nýju bankaráð sem eiga að stjórna þessum bönkum í framtíðinni líti strax dagsins ljós. Mér var sagt í upphafi að þessi bankaráð verði bráðabirgðabankaráð. Ef svo er ekki verður forsætisráðherra að upplýsa það hér. Það þolir enga bið og opinber rannsókn þarf að fara í gang strax.