136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

bankaráð ríkisbankanna.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég tek það fram að í bráðabirgðabankaráðunum sitja embættismenn og starfsmenn ráðuneyta sem þekktir eru að samviskusemi og heiðarleika í störfum sínum og hafa reynt að sinna sínum erfiðu verkefnum, sem óvænt komu í fangið á þeim fyrir nokkrum vikum síðan, af prýði og ég veit ekki annað en allir hafi gert það.

Það þarf að ganga frá þessum máli með varanlegri hætti, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Til stendur að gera það á næstu dögum og þá þarf líka að velja hæft, traust og heiðarlegt fólk úr flokkum til setu í bankaráðin.

Um hitt málið vísa ég til míns fyrra svars. Það eru engir skuldarar öðrum merkilegri í viðskiptabönkunum á Íslandi og allir eiga að fá sömu meðferð.