136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

viðræður forsætisráðherra við Gordon Brown í apríl.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það gætir töluverðrar ónákvæmni í þessari frétt sem hv. þingmaður vitnar til. Eigi að síður er fótur fyrir einhverju sem þar stendur, m.a. því að við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hittumst í London 25. apríl sl. Gefin var út fréttatilkynning um þann fund. Í henni segir að við höfum m.a. rætt alþjóðlegu efnahags- og fjármálakreppuna, erfiðleikana í bankakerfi heimsins og áhrif þess á Íslandi og m.a. í því samhengi þau áhrif sem það gæti haft á starfsemi íslenskra fyrirtækja í Bretlandi sem eru með yfir 100 þúsund manns í vinnu. Það munar um það þar í landi. Það var rætt en komið hefur fram á öðrum vettvangi að Seðlabanki Íslands hafði fyrr á árinu leitað fulltingis breska seðlabankans um einhvers konar gjaldmiðlaskiptasamning eða fyrirgreiðslu af því tagi.

Málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bar vissulega á góma á þessum fundi en mig rekur ekki minni til að forsætisráðherra Bretlands hafi sérstaklega mælt með því að við leituðum þangað á því stigi. Þetta voru góðar umræður og mjög gagnlegar og ég taldi mig hafa mikið gagn af þeim. Fréttirnar af fundinum rugluðust dálítið vegna misskilnings sem fram kom á heimasíðu breska forsætisráðuneytisins um að meginefni hans hefði verið aðild Íslands að Evrópusambandinu sem var ekki einu sinni rætt. Þau mál sem hv. þingmaður spyr um voru rædd með þeim hætti sem ég hef nú lýst og ég tel að það hafi verið góðar umræður sem voru vonandi báðum aðilum gagnlegar og hafa skipt máli í framhaldinu.