136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

samstarf um nýtt lagaumhverfi fyrir fjármálakerfið.

[14:08]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ef það yrði skoðað hvernig lög um regluverk á fjármálamarkaðnum hafa verið afgreidd á Alþingi á undanförnum árum allt frá því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu kæmi í ljós að flestöll lagafrumvörp um þetta efni hafa verið samþykkt samhljóða út úr þinginu, að hvorki Vinstri grænir, forverar þeirra né aðrir stjórnmálaflokkar hafi gert veigamiklar athugasemdir við það regluverk. Vill þingmaðurinn gera athugasemd? (ÖJ: Ekki gleyma ... söguð út af borðinu.) Það er nefnilega það. En ég vildi segja að frumkvæðisrétturinn í þessu máli og skyldan er að sjálfsögðu hjá ríkisstjórninni og viðskiptaráðherra hennar en atbeini annarra þingflokka kemur að sjálfsögðu til skjalanna hér í Alþingi. Ekki verður fúlsað við athugasemdum eða hugmyndum hvaðan svo sem þær koma úr hinu pólitíska litrófi í því starfi sem fram undan er í þessum efnum. En fyrst þarf að vinna þetta mál á vettvangi ríkisstjórnarinnar. (ÖJ: Hættu að snúa út úr ...) Kemur það ekki úr hörðustu átt þegar hv. þingmaður segir öðrum að hætta að snúa út úr?