136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:30]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Enn og aftur lendum við í því hlutskipti, þingmenn, að ræða um fjölmiðlamál og að gefnu tilefni þar sem einn aðili er að eignast öll dagblöðin í landinu að stærstum hluta. Þess vegna er mjög tímabært að fjalla um þessi mál og skoða þau upp á nýtt. Auðvitað er hægt að fagna þeim hugmyndum hæstv. menntamálaráðherra að skipa nefnd til að skoða þessi mál. Samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum er með þessu móti engin og það þarf að laga. Frjálsir fjölmiðlar eru sárafáir. Þó er rétt að minna á útvarpsstöð eins og Útvarp Sögu en í blaðaheiminum eru ekki önnur blöð gefin út en þessi fáu. (Gripið fram í: Viðskiptablaðið . ) Reyndar Viðskiptablaðið , eins og þingmaður kallar fram í. En fjórða valdið er ekki virkt. Vandi sjálfstæðra útvarpsstöðva, sjálfstæðrar fjölmiðlunar er líka það ægivald sem Ríkisútvarpið hefur á markaðnum. Þar er Ríkisútvarpið einrátt á stórum hluta og með sérstaka fjárveitingu á fjárlögum og fær að vera í samkeppni á auglýsingamarkaðnum og það gengur auðvitað ekki upp að búa við þessi skilyrði. Þess vegna þarf ekki síst að taka Ríkisútvarpið og starfsemi þess til endurskoðunar fyrst verið er að taka fjölmiðlamál almennt á dagskrá sem vissulega þarf að gera. En einokunarlög, samkeppnislög þarf auðvitað að skoða af þessu tilefni.