136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

Seðlabanki Íslands.

50. mál
[16:46]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Blessað fólkið. Það er rétt, Framsóknarflokkurinn bar skarðan hlut frá borði, þannig er það bara, og samvinnuhugsjónirnar og allt það fóru fyrir bí á þessum tíma (HöskÞ: Þær eru ekki fyrir bí.) og leifarnar af Sambandinu fóru — ég veit ekki hvert. Kannski hv. þingmaður viti betur en ég hvar þær eru niðurkomnar og hvert þær fóru og í hvaða höndum þær eru og hver örlög þeirra og þeirra sem hafa unnið við þessi störf eru.

Hús var byggt, segir hv. þingmaður, og byggja hefði þurft ofan á það. Það sem gerðist var að enginn grunnur var undir húsinu. Hús þarf að reisa á grunni en það var ekki gert. Farið var af stað á gríðarlegum hlaupum og hamagangi með einkavæðingunni á bönkunum og ýmsu öðru og ekki hugað nógu vel að því.

Ég ætla svo sem ekki að segja að — samfylkingarmenn vöruðu margsinnis við mörgu, (HöskÞ: Mátti ekki byggja ofan á það?) t.d. þegar Síminn var seldur. Samfylkingin krafðist þess að netið yrði ekki selt með. Það var eitt. Einnig er hægt að tala um net raforkufyrirtækjanna og margt annað, en ég ætla ekki í kappræður um þetta við hv. þingmann. Mig langar bara til að segja þetta vegna orða hans hér, en legg áherslu á að við ættum frekar að reyna að standa saman og taka á þeim málum sem standa að okkur núna, byggja upp það sem er að hrynja og reyna að koma því á fæturna aftur.